30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi voru samþykkt lög um húsnæðissparnaðarreikninga. Í þeim lögum eru ákvæði þess efnis að innlegg manna á húsnæðissparnaðarreikningi skapi rétt til skattaafsláttar. Í grg. með frv. á síðasta Alþingi kemur fram að meginreglur frv. séu þær að reglubundinn sparnaður manna á húsnæðissparnaðarreikningum í bönkum og sparisjóðum skapi rétt til skattaafsláttar er nemi fjórðungi árlegs innleggs.

Þann 29. ágúst s.l. skrifaði húsnæðissamvinnufélagið Búseti fjmrn. bréf þar sem óskað er eftir því að fjmrn. veiti félagsmönnum Búseta rétt til að taka þátt i húsnæðissparnaði Alþýðubankans og njóta þeirra kjara sem húsnæðissparnaðarreikningar bjóða upp á, þar á meðal skattafrádrátt. Í bréfi Búseta til fjmrn. kom fram að Búseti hafi hafið samstarf við Alþýðubankann um víðtækan sparnað félagsmanna til kaupa á búseturétti.

Fjmrn. svaraði þessari beiðni húsnæðissamvinnufélagsins Búseta með bréfi dags. 12. sept. s.l. sem ég tel rétt að lesa hér, með leyfi forseta. Bréf fjmrn. hljóðar svo:

„Ráðuneytið vísar til erindis dags. 29. ágúst s.l. þar sem óskað er eftir áliti á því hvort svokallaðir búsetusamningar teljist jafngilda kaupsamningi eða vottorði byggingarfulltrúa í 3. gr. laga nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga.

Í fyrsta lagi vill ráðuneytið benda á að ekki er í lögum að finna skilgreiningu á hugtakinu búseturétti. Hins vegar má draga vissar ályktanir af frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem lagt var fyrir 107. löggjafarþing, um hvernig eigi að skýra hugtakið búseturétt.

Af hálfu Búseta hefur ekki verið lagður fram búsetusamningur. Hins vega hefur Búseti fengið Ragnar Aðalsteinsson til að gera skilgreiningu á hugtakinu búseturéttur. Í 1. málsgr. 87. gr. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1984 segir að búseturéttur veiti félagsmanni ótímabundinn umráðarétt yfir íbúð, enda standi hann skil á gjöldum til félagsins vegna íbúðarinnar. Af 83. gr. og 91. gr. frv. má ráða að það yrði Búseti sem yrði eigandi íbúðarinnar en ekki tilteknir einstaklingar.

Er það því skoðun ráðuneytisins að búsetusamningur, eins og hann er skilgreindur í frv, sé í raun samningur um tiltekin afnot af íbúð, þ.e. afnotasamningur, en eigi kaupsamningur sem felur í sér eignarrétt að tiltekinni eign. Ráðuneytið telur að túlka verði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 49/1985 um húsnæðisreikninga þröngt, þ.e. að innistæða húsnæðissparnaðarreiknings verði aðeins laus þegar reikningseigandi kaupir húsnæði til eigin nota eða hefji byggingu slíks húsnæðis, enda séu liðin full þrjú ár frá því að fyrst var lagt inn á reikninginn.

Þar sem það er skoðun ráðuneytisins að búsetusamningur sé fyrst og fremst afnotasamningur, en ekki kaupsamningur, telur ráðuneytið að búsetusamningur, eins og hann er skilgreindur af Búseta, leysi ekki húsnæðissparnaðarreikninga.“

Þetta bréf er skrifað af fjmrn. meðan Albert Guðmundsson var þar fjmrh. Búseta hefur borist annað bréf frá fjmrn. sem ritað er eftir að Þorsteinn Pálsson tók við embætti fjmrh. Það bréf hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið vísar til erindis dags. 20. sept. s.l. þar sem Búseti fer þess á leit að ráðuneytið taki til endurskoðunar bréf ráðuneytisins dags. 12. sept. s.l. varðandi húsnæðissparnaðarreikninga. Í þessu sambandi vill ráðuneytið taka fram að það telur ekki ástæðu til að breyta fyrri afstöðu sinni, enda hefur ekkert nýtt komið fram er gefur tilefni til þess.“

Þannig liggur fyrir skilningur fjmrn. á þessu frv. og væri nú fróðlegt að fá fram í þessari 1. umr. um það frv., sem hér liggur fyrir til umræðu um breytingu á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga, hvert álit hæstv. félmrh. er á þessari túlkun fjmrn., á því að þeir telja að húsnæðissamvinnufélagið Búseti hafi ekki rétt skv. lögum um húsnæðissparnaðarreikninga og hvort það sé þá einnig álit hæstv. félmrh.

En tilefnið að flutningi þessa frv., sem ég mæli fyrir en flm. ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Kristín S. Kvaran og Guðrún Agnarsdóttir, er einmitt sú synjun sem fram kemur í bréfi fjmrn. sem ég hef hér lesið. Vil ég, með leyfi forseta, lesa þá stuttu grg. sem frv. þessu fylgir. Hún hljóðar svo:

„Í athugasemdum með frv. til laga um húsnæðissparnaðarreikninga, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í júní s.l., kemur fram að meginreglur frv. séu þær að reglubundinn sparnaður manna á húsnæðissparnaðarreikningum í bönkum og sparisjóðum skapi rétt til skattafsláttar. Fram kemur einnig í athugasemdum með frv. að nauðsynlegt sé að hvetja til sparnaðar áður en hafist er handa um öflun íbúðarhúsnæðis eða meiri háttar endurbóta auk þess sem almenn þjóðhagsleg rök hníga að auknum sparnaði innanlands.

Ljóst er að það gengur þvert á ofangreind markmið laganna ef túlkun og framkvæmd þeirra er svo þröng að þeim, sem stofna húsnæðissparnaðarreikninga vegna öflunar húsnæðis, er mismunað allt eftir því hvernig eignaraðild eða eignarhaldi húsnæðis er háttað þó að ákvæði laganna sé að öðru leyti uppfyllt. Megintilgangur laganna hlýtur að vera að hvetja til sparnaðar vegna öflunar húsnæðis. Verður að telja að það sé ekki í samræmi við vilja Alþingis eða anda laganna ef útiloka á stóra hópa frá þeim rétti sem lögin um húsnæðissparnaðarreikninga veita jafnvel þó að eignarhald eða eða ráðstöfunarréttur á húsnæði sé á einhvern hátt takmarkaður eins og oftast er um félagslegar íbúðarbyggingar.

Á þetta hefur þegar reynt því að fyrir liggur að fjmrn. hefur synjað félagsmönnum í húsnæðissamvinnufélaginu Búseta um þann rétt sem lögin um húsnæðissparnaðarreikninga veita þó að ekki verði annað séð en að félagsmenn í Búseta uppfylli ákvæði laganna.

Frv. þetta er flutt til að taka af allan vafa í þessu efni og tryggja að sparnaður vegna öflunar húsnæðis, hvort sem er hjá húsnæðissamvinnufélögum eða öðrum félagslegum íbúðarbyggingum, veiti sama rétt skv. ákvæðum laga um húsnæðissparnaðarreikninga og önnur kaup á húsnæði til eigin nota.“

Herra forseti. Þar sem fjmrn. byggir synjun sína um rétt félagsmanna húnæðissamvinnufélagsins Búseta á því að búsetusamningur sé fyrst og fremst afnotasamningur en ekki kaupsamningur tel ég rétt að vitna í grg. Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns um skilgreiningu á búseturétti sem sett er fram að ósk húsnæðissamvinnufélagsins Búseta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Réttarstaða eigenda búseturéttar er réttarstaða þess sem á hluta í íbúð með tilteknum takmörkunum á ráðstöfunarrétti á búseturéttinum. Þessar takmarkanir eru þó ekki svo verulegar að ekki sé um beinan eignarrétt að ræða hjá handhafa búseturéttarins. Sé réttarstaða búseturéttarhafans borin saman við réttarstöðu leigutaka íbúðarhúsnæðis kemur í ljós að um gjörólík réttindi er að ræða. Búseturéttarhafinn getur notað íbúðina eins lengi og honum sýnist á sama hátt og eigandi en leigutaki er háður vilja leigusala um það hversu lengi hann hefur afnot íbúðar. Búseturéttarhafi getur þó ekki ráðstafað rétti sínum til hvaða aðila sem vera skal heldur er hann bundinn reglunum um forkaupsrétt húsnæðissamvinnufélags. Enda þótt búseturéttur sé þannig háður forkaupsrétti húsnæðissamvinnufélags þá breytir það engu um það að um beinan eignarrétt er að ræða.“

Síðar í grg. sinni segir Ragnar Aðalsteinsson, með leyfi forseta: „Samningur um búseturétt er því samningur á milli húsnæðissamvinnufélags og félagsmanns um að félagsmaðurinn kaupi hlutdeild í ákveðinni íbúð með því að greiða ákveðið hlutfall af kostnaðarverði íbúðarinnar. Með þessari greiðslu tryggir félagsmaðurinn sér umráðarétt fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína yfir íbúðinni eins lengi og hann sjálfur ákveður. Ráðstöfunarréttur á búseturéttinum er hins vegar takmarkaður með tilliti til markmiða húsnæðissamvinnufélaga sem er öflun íbúðarhúsnæðis fyrir félagsmenn með viðunandi kjörum.

Búseturétt verður að skilgreina með hliðsjón af því sem að framan er sagt og er hann í sem fæstum orðum réttur sem félagi í húsnæðissamvinnufélagi hefur keypt með því að greiða tiltekið hlutfall af verðmæti íbúðar og eignast þar með umráðarétt yfir íbúðinni sem takmarkast þó við afnot af íbúðinni sem íbúðarhúsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Í búseturéttinum felst beinn eignarréttur sem gengur að erfðum og vilji eigandinn selja réttinn er rétturinn háður forkaupsrétti húsnæðissamvinnufélags. Gert er ráð fyrir reglum sem kveða á um hvernig ákveða skuli verðmæti búseturéttarins ef forkaupsréttar er neytt.

Af öllu framangreindu er augljóst að eigi er unnt að leiða að því rök að búseturétturinn sé annað en beinn eignarréttur enda hefur hann öll einkenni hans þótt með nokkrum takmörkunum sé.“

Ég tel einnig rétt að vitna í grg. Guðjóns Ármanns Jónssonar héraðsdómslögmanns til Alþýðubankans þar sem fram kemur umsögn um réttarstöðu félagsmanna í húsnæðissamvinnufélaginu Búseti með tilliti til laganna nr. 49/1985 um húsnæðissparnað. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ljóst er að eignarhald manna og réttindi yfir húsnæði getur verið með mismunandi hætti og má þar m.a. benda á ýmis form félagslegra íbúðarbygginga. Af orðalagi laganna um húsnæðissparnaðarreikninga og áðurnefndri tilvitnun í athugasemdir með frv. verður að ætla að megintilgangur og markmið lagasetningar sé almennur hvati til sparnaðar og ráðdeildarsemi ásamt fyrirhyggju við öflun eigin húsnæðis.

Í ljósi þessa virðist eðlilegt að skýra ákvæði laganna varðandi kaup á íbúðarhúsnæði ekki of þröngt þannig að öflun íbúðarhúsnæðis til eigin afnota, þar sem rétthafi kaupir sér ótímabundna og óafturkallanlega hlutdeild eða réttindi yfir húsnæði, falli undir ákvæði laganna og það enda þótt eignarhaldið sjálft, skráning eignarheimildarinnar, og ráðstöfunarrétturinn á húsnæðinu sé verulega takmarkaður. Má ráða þennan skilning m.a. af ákvæðum laga um félagslegar íbúðabyggingar eins og þeim er lýst í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins nr. 60/1984, en vafalaust verða kaup einstaklinga á slíku húsnæði talin falla undir ákvæði húsnæðissparnaðarlaganna. Af skilgreiningu Ragnars Aðalsteinssonar hrl. á hugtakinu búseturéttur og því sem í búseturétti felst má ætla að kaup á búseturétti í tiltekinni íbúð jafngildi kaupum í skilningi nýju húsnæðissparnaðarlaganna.“

Herra forseti. Draga verður þá ályktun af niðurstöðu þessara tveggja lögfræðinga, Ragnars Aðalsteinssonar hrl. og Guðjóns Ármanns Jónssonar hdl., að þeir telji að húsnæðissparnaður félagsmanna húsnæðissamvinnufélagsins Búseta falli undir ákvæði laganna um húsnæðissparnaðarreikning. Það er og skoðun flm. þessa frv. að fjmrn. túlki ákvæði laganna of þröngt og að félagsmenn Búseta uppfylli þau skilyrði sem til þarf til að öðlast rétt samkvæmt lögum um húsnæðissparnaðarreikninga.

Flm. þessa frv. telja þó nauðsynlegt að Alþingi taki af allan vafa í þessu efni í ljósi túlkunar fjmrn. á umræddum lögum og að Alþingi staðfesti ótvíræðan rétt húsnæðissamvinnufélaga til að njóta réttar skv. ákvæðum laga um húsnæðissparnaðarreikninga, enda hlýtur slíkt að vera í samræmi við vilja Alþingis frá síðasta þingi sem fram kemur í grg. með frv., þ.e. að hvetja til sparnaðar vegna öflunar húsnæðis.

Flm. leggja því til þá breytingu á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga, sem fram kemur á þskj. 16, að ótvírætt verði lögfestur réttur húsnæðissamvinnufélaga til að njóta réttar skv. ákvæðum laga um húsnæðissparnaðarreikninga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra en ítreka ósk mína til hæstv. félmrh. að hann geri þingheimi grein fyrir því hvort hann sé sammála þeirri túlkun sem fram hefur komið hjá fjmrn. og ég hef hér lýst.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.