10.03.1986
Efri deild: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

288. mál, kostnaðarhlutur útgerðar

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. það er hér liggur fyrir um sérstakan kostnaðarhlut útgerðar. Frv. þetta, sem er stjfrv., var flutt vegna þeirra breytinga, sem gerðar voru á hlutaskiptum við síðustu verðlagsákvörðun um fiskverð, sem gilda á fyrir tímabilið 1. febr. til 31. mars 1986.

Fiskverðsákvörðunin tók mið af því að svokallaður kostnaðarhlutur útgerðar utan skipta lækkaði um 21/2% við landanir innanlands og um 1% við sölu afla erlendis og hlutir sjómanna hækkuðu sem því nemur. Hið svokallaða kostnaðarhlutfall er í gildandi lögum 29% og svo verður áfram. Þessi 29% greiðir fiskkaupandi ofan á það fiskverð sem ákveðið er af Verðlagsráði sjávarútvegsins.

Með þessum lögum er gert ráð fyrir því að 61/2% af þessum 29 komi til hlutaskipta og aflaverðlauna til skipverja á fiskiskipum sem eru yfir 240 brúttórúmlestir, en 221/2% ekki. Í gildandi lögum eru það 4% sem koma til skipta. Á sama hátt er ákveðið í þessum lögum að 101/2% skuli koma til skipta á skipum sem eru 240 brúttórúmlestir eða minni. Í gildandi lögum er þetta 8%.

Á sama hátt ákveða þessi lög að þegar fiskiskip selur afla erlendis skuli auk frádráttartölu kjarasamninga og stofnfjársjóðsgjalds draga 6%, sem sérstakan kostnaðarhlut útgerðar, frá heildarsöluverðmæti við ákvörðun aflaverðlauna, aukaaflaverðlauna og hlutar samkvæmt kjarasamningum. Í gildandi lögum eru þetta 7%.

Eins og fram kemur í nál. sjútvn. á þskj. 579 kallaði sjútvn. á sinn fund fulltrúa samningsaðila frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og frá farmanna- og sjómannasamtökunum og höfðu þeir ekkert við þetta að athuga, enda var þetta samningsákvæði sem þeir gerðu sín á milli þegar fiskverð var ákveðið. Nefndin er því öll sammála um að þetta frv. verði samþykkt.

Þær tölur, sem ég hef farið með og um er getið í frv., virðast vera hálfgert torf þegar maður les þetta yfir, en þessu til viðbótar vil ég aðeins geta þess að núna er að störfum nefnd sem var fengin til að endurskoða svokallað sjóðakerfi sjávarútvegsins. Hún hefur haldið þrjá fundi eftir áramót og er komin vel á veg að takast á við það verkefni, en þarna liggja allt of margir hlutir í þessum millifærsluleiðum sem er farið að fara nokkuð í taugarnar á mönnum og þeir vilja takast á við að leiðrétta. Það er of snemmt að segja um árangur af þeirri endurskoðun en þegar það verður og ef það verður, sem þar er að stefnt, þá munu t.d. lög sem þessi að sjálfsögðu niður falla. En þau eru nauðsynleg á þessu stigi máls svo að hægt sé að vinna eftir því sem gert var samkomulag um við síðustu fiskverðsákvörðun.