10.03.1986
Neðri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Án þess að ég vilji á nokkurn hátt angra hæstv. forseta í því erfiða starfi sem hann hefur átt hér í dag með því nánast að reyna að þröngva þessu frv. í gegnum þingið, ekki með meiri hluta þingdeildarmanna í mörgum tilfellum heldur með víxlgengi atkvæða sitt á hvað, hlýt ég að spyrjast fyrir um hver ætlanin er með framhald á þessu máli. Ég veit ekki betur en s.l. miðvikudag hafi verið gert samkomulag að beiðni hv. þm. Friðriks Sophussonar um að 2. og 3. umr. væri frestað til mánudags. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvað hann hyggst fyrir með áframhald þessa máls, hvort það verður afgreitt í dag eins og samkomulag er um eða hvort um frestun er að ræða eða hvort um það væri að ræða að frv. væri algerlega frestað eins og lítur nú út fyrir. Ég hlýt að spyrjast fyrir um þetta vegna þess að ef meining forseta er að taka þetta mál fyrir n.k. miðvikudag mun ég óska eftir frestun á því, það verði ekki gert á miðvikudegi. Ég geri ráð fyrir að forseti verði við minni ósk eins og annarra hv. þm. að því er þetta mál og önnur varðar.