10.03.1986
Neðri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ég vil nú taka fram að það var að sjálfsögðu ætlunin að reyna að ljúka þessu máli ef nokkur kostur hefði verið í dag. En þess er enginn kostur eins og nú standa sakir. Að sjálfsögðu var ætlun forseta að þetta mál kæmi fyrir aftur á næsta fundi deildarinnar sem vafalaust verður á miðvikudaginn, en auðvitað er forseti alltaf til samkomulags um að haga svo málum að allir geti vel við unað. En það er ekki enn farið að gera dagskrá fyrir miðvikudaginn og rétt að bíða þess og ræða um það utan fundar og við nefndina hvernig við getum þokað þessu máli fram. En forseti hefur það ekki nema að litlum hluta á valdi sínu hvernig þingmál ganga fram. Hann hefur þann metnað að sjálfsögðu að koma öllum málum sem skipulegast og örast fram og það á við um þetta mál eins og önnur og er rétt að ræða þetta utan fundar. En málið kemur ekki frekar fyrir í dag eins og ég hef þegar sagt.