10.03.1986
Neðri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skil orð forseta svo að hér geti verið um það að ræða í framhaldi af þessu að málið verði ekki tekið fyrir á miðvikudag þó að engu sé slegið föstu um það.

Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að það er ekki hægt að skuldbinda eða þvinga einn eða neinn til samkomulags um hlutina, en samkomulag var um að greiða þannig fyrir málinu að það gæti hlotið lokaatkvæðagreiðslu við 2. umr. og 3. umr. í dag. Það var vilji stjórnarandstöðunnar að gera slíkt. Nú hefur það komið upp hjá stjórnarliðinu sjálfu að það vill málið ekki áfram til 3. umr. í dag. Það er athyglisvert að íhuga vegna hvers slíkt er. Það er stjórnarandstaðan sem hefur nánast hlaupið undir bagga með því að koma þessari atkvæðagreiðslu frá í dag með þeim hætti sem gert hefur verið. Ég dreg mjög í efa að það sé löggjafarsamkomunni gerlegt að afgreiða lagabálka með þeim hætti sem hér hefur gerst í dag þar sem minni hl. deildar ákvarðar um löggjöf. Ég dreg mjög í efa að löggjafarsamkomunni sé stætt á slíku þegar um er að ræða löggjöf af því tagi sem hér um ræðir þó að hún sé í mínum huga að flestu leyti ómerkileg og til einskis nýt nema tvö eða þrjú ákvæði þessa frv.