30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. En ég er meðflm. að þessu frv. og vil þess vegna að það komi hér skýrt fram hve mjög ég styð það. Sú synjun ráðuneytisins, sem varð tilefni þessa frv. um breytingu á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga, er alveg forkastanleg og lýsir fyrst og fremst þeirri þröngsýni sem er alls ráðandi hvað þetta varðar.

Varðandi þau ummæli, sem hér féllu áðan hjá hv. þm. Halldóri Blöndal um að ekki væri hægt að nota húsnæðissparnaðarreikninga á Norðurlöndum skv. hans athugun í þessu skyni, þá getur það allt verið mjög rétt og skal ég ekki draga þá athugun hans neitt í efa. En þegar hann athugaði búseturéttarlöggjöf hinna Norðurlandanna almennt hlýtur hann að hafa getað skynjað það hve miklum mun það er auðveldara almennt að eiga færi á því að komast í húsnæði, á hvern hátt sem það er, á hinum Norðurlöndunum og ekkert sambærilegt við okkar aðstæður hér. Þar er alveg sama hvort talað er um að fá lán til eigin húsnæðis, svokallaðs „selveijer“, eða hvort það er fyrir búseturéttaríbúðir eða „borettslag“.