10.03.1986
Neðri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

321. mál, tollskrá

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls bar ég fram tvær fsp. til hæstv. fjmrh., annars vegar varðandi þjónustugjöld bankanna sem hér voru til umræðu fyrir nokkrum dögum og hins vegar varðandi húsnæðismál. Ég tel að svör hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins hafi verið ófullnægjandi við báðum þessum liðum, einkum varðandi húsnæðismálin þar sem ég spurði þeirrar einföldu spurningar hvort það væri ætlun ríkisstj. að leggja fyrir yfirstandandi löggjafarþing frv. um húsnæðismál þannig að hið nýja húsnæðislánakerfi gæti tekið gildi frá 1. sept. eins og gert var ráð fyrir í þeim kjarasamningum sem gerðir voru fyrir stuttu. Ég ítreka þess vegna fsp. mínar, herra forseti.

Varðandi málið sjálft, sem hér liggur fyrir, hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara og ég óska eftir því að nál., eins og því hefur verið dreift hér, verði leiðrétt þegar í stað. Þessi fyrirvari minn kemur ekki fram á nál. á þskj. 603. Því var hins vegar lýst af frsm. nefndarinnar áðan.

Fyrirvarinn lýtur einkum að því atriði, sem ég gat um í upphafi, að auðvitað er framkvæmd þessa máls á ábyrgð ríkisstj., auk þess sem það hlýtur að orka tvímælis og vera umdeilanlegt hvort sú aðferð sem hér er höfð við niðurfærslu verðlags sé hin eina rétta og skynsamlega. Það sem skiptir máli í því efni er hins vegar að átta sig á að áhrifin af þessari niðurfærsluaðgerð yrðu fyrst og fremst á lánskjaravísitöluna. Hún hækkar minna en ella og það kemur þeim mörgu til góða sem eru með verulega þungar skuldir vegna húsnæðiskaupa.

Þá vil ég einnig geta þess, herra forseti, að í nefndinni var nokkuð fjallað um stöðu öryrkja sem hafa notið ákveðinna réttinda til niðurfellingar tolla af bifreiðum. Svör í þeim efnum fengust ekki á fundi nefndarinnar áðan. Hins vegar er nauðsynlegt að mínu mati, áður en málið fer út úr deildinni, að svör fáist um með hvaða hætti hæstv. fjmrh. hyggst taka á því máli þannig að öryrkjar verði jafnsettir öðrum eftir þessa breytingu og áður hefur verið. Einkum er um að ræða þá sem hafa fengið verulega niðurfellingu tolla, þ.e. þá sem eru mjög fatlaðir. Hefur verið um að ræða 40 bíla á ári sem veitt hefur verið veruleg niðurfelling tolla af. Þetta mál er auðvitað óhjákvæmilegt að athuga núna vegna þess að einmitt þessa dagana er verið að ganga frá úthlutun á svokölluðum öryrkjabílum og þeir tilfærslur á tollum, sem hér er verið að afgreiða á hv. Alþingi, snerta mjög störf þeirrar nefndar sem nú vinnur að úthlutun á svokölluðum öryrkjabílum.