10.03.1986
Neðri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

321. mál, tollskrá

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. tengist því frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum 1986 sem fjallað var um hér í deildinni og gert að lögum fyrir u.þ.b. tíu dögum. Þær efnahagsaðgerðir, sem boðaðar voru í því frv., tengjast nýgerðum kjarasamningum sem Kvennalistinn getur ekki stutt. Þar af leiðandi studdum við þingkonur Kvennalistans ekki það frv., en sátum hjá við afgreiðslu þess. Forsendur þeirrar afstöðu voru vel skýrðar í framsögu minni þá og í framsögu hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur í Ed. Afstaða okkar hefur ekki breyst á þessum tíu dögum og munum við þingkonur Kvennalistans því sitja hjá við afgreiðslu þessa frv. eins og þess frv. sem það er tengt. Konurnar sem fylla lægstu launaflokkana í þessu landi hafa ekkert frekar efni á því að kaupa sér bíla þó að tollur af þeim sé lækkaður eitthvað meira en þær höfðu fyrir tíu dögum og munu hafa í kjölfar þessara kjarasamninga.

Þetta frv. tengist einnig beint málefnum öryrkja, eins og komið hefur fram í umræðunni hér áður, og styð ég það og tek undir að nauðsynlegt er að huga vel að réttlætismálum í þeim efnum.