11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

222. mál, staða lektors í íslenskum bókmenntum

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 450 hef ég borið fram fsp. í tveimur liðum til hæstv. menntmrh. varðandi stöðu lektors í íslenskum bókmenntum við heimspekideild Háskóla Íslands. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hvaða forsendur lagði ráðherra til grundvallar þegar hann réð í stöðu lektors í íslenskum bókmenntum við heimspekideild Háskóla Íslands 27. des. s.l.?

2. Með hvaða rökum taldi ráðherra sig ekki þurfa að taka tillit til sérstakra meðmæla dómnefndar né til vilja heimspekideildar þegar hann réð í þessa stöðu?"

Eins og hv. þm. vita hefur þessi stöðuveiting menntmrh. verið ákaflega umdeild og henni verið mótmælt kröftuglega af þeim aðilum sem málið er skylt. Má þar nefna mótmæli stúdentaráðs Háskóla Íslands, mótmæli Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum, mótmæli nemenda á kandídatsstigi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands og nú síðast mótmæli virðulegs háskólaráðs sem telur að ráðherra hafi sýnt störfum háskólamanna lítilsvirðingu með umræddri stöðuveitingu.

Svör hæstv. ráðh. við mótmælum háskólaráðs, svo og svör hans við spurningum fréttamanna um þetta mál eru mér kunn og ég vil taka það fram að slík svör vil ég ekki fá við fsp. minni hér á eftir. Ég vil t.d. ekki fá þau svör, sem háskólaráð fékk, að dómnefnd hafi metið tvo hæfustu umsækjendurna svipaða að hæfni eða alveg jöfn, eins og ráðherra segir í DV 29. jan. s.l. Slíkt svar vil ég ekki einfaldlega vegna þess að það er ekki rétt og því til staðfestingar vil ég lesa hér heildarniðurstöðu dómnefndar um hæfni umsækjenda, með leyfi forseta:

„Allir umsækjendur teljast hæfir nema Árni Sigurjónsson sökum námsferils. Tveir umsækjendur skera sig úr, þau Helga Kress og Matthías Viðar Sæmundsson.

Helga Kress er dósent í almennri bókmenntafræði og hefur meiri og víðtækari reynslu en hann sem háskólakennari og fræðimaður. Af þeim sökum mælir dómnefnd með því að hún verði valin til starfsins.“

Auk þessa ótvíræða dómnefndarálits vil ég láta þess getið að vilji heimspekideildar í þessu máli er einnig ótvíræður. Við atkvæðagreiðslu í deildinni hlaut Helga Kress 26 atkvæði í stöðuna, dr. Örn Ólafsson 7 atkvæði og Matthías Viðar Sæmundsson, sá er ráðherra veitti stöðuna, hlaut 4 atkvæði.

Ég biðst líka undan því að fá svör frá ráðherra hér á eftir á borð við þau að óhæfa hefði verið að veita Helgu stöðuna vegna þess að við það hefði hún lækkað í launum eða vegna þess að hún sé þegar í fastri stöðu við Háskóla Íslands. Ef hún kýs að sækja um lægra launaða stöðu en hún þegar hefur er það vitaskuld hennar ákvörðun en ekki ráðherra. Ljóst er einnig að umrædd staða er nær rannsóknarsviði Helgu en sú staða sem hún gegnir nú og því eðlilegt að hún vilji færa sig á milli þótt tímabundið væri.

Virðulegi forseti. Tími minn er útrunninn og ég skal láta máli mínu lokið. Mig langar að bæta örlítilli spurningu við til hæstv. ráðh. Í Morgunblaðinu 7. jan. s.l. er haft eftir ráðherra að hann hafi „kannað þetta mál mjög rækilega og skoðað sig vel um bekki“, eins og hann segir, áður en hann veitti stöðuna. Hvaða bekki skoðaði ráðherrann og hvað á hann við með þessum ummælum?