11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3034 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

222. mál, staða lektors í íslenskum bókmenntum

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þær forsendur sem lágu til grundvallar þegar ég tók ákvörðun um að veita Matthíasi Viðari Sæmundssyni stöðu lektors í íslenskum bókmenntum voru þær að þar fengi Háskólinn vel menntaðan mann til að gegna þessari tímabundnu stöðu. Þannig stóð á að Vésteinn Ólason hafði fengið leyfi frá störfum til framhaldsmenntunar og þessi staða var þess vegna auglýst laus tímabundið. Það kom fram, enda las hv. 11. þm. Reykv. það upp sjálfur, að dómnefndin taldi tvo umsækjendur skera sig úr. Það voru þau Helga Kress og Matthías Viðar. Helga Kress hefur gegnt og gegnir dósentsstöðu við Háskólann þannig að með því að skipa Matthías Viðar í þetta embætti bættist Háskólanum, að mínum dómi, verðmætur starfskraftur. Þetta réði afstöðu minni.

Ég get því miður ekki lagt mikið upp úr atkvæðagreiðslu í heimspekideild Háskólans þar sem kannske nýráðnir Márar frá Spáni eiga atkvæðisrétt um stöðu bókmennta í íslenskum fræðum, enda hlaut Örn nokkur Ólafsson nærri helmingi fleiri atkvæði en Matthías Viðar, enda þótt dómnefndin teldi Matthías Viðar skera sig mjög úr ásamt með Helgu Kress, þannig að að því leyti er ekki mikið upp úr þessum atkvæðagreiðslum leggjandi.

Það kann vel að vera að það sé mál Helgu Kress, eins og það er orðað af fyrirspyrjanda, að sækja um stöðu niður fyrir sig, þremur launaflokkum lægri. En það er ég sem ræð. Það er það sem skiptir máli, en ekki hvort hún kýs svo að sækja um stöðu lektors í þessu falli og þremur launaflokkum neðar en hún nýtur launa samkvæmt stöðu sinni nú.

Ég mætti kannske spyrja hvað Kvennalistinn mundi hafa sagt ef ég hefði tekið mig til og skipað hana í stöðuna gegn vilja hennar þremur launaflokkum neðar en hún nýtur launa í samkvæmt núverandi starfi sínu. Það er enginn vafi á því að Háskólinn hefur verðmætan starfskraft þar sem Helga Kress er, enda breytir þetta stöðu hennar í öngvu.

Ég verð nú að segja að ég hlýt að vara við þessu tali um kvennabókmenntir. Hvenær skyldi að því draga að við fáum karlamálverk eða karlatónlist? Er ekki þetta nokkuð óþarft tal og þessi sundurgreining, sem þarna er verið að fitja upp á, og gersamlega út í hött?

Ég fór vissulega að niðurstöðum dómnefndar því að dómnefndin mat þau jöfn, en raðaði þeim, Helgu nr. 1 og Matthíasi nr. 2, það er að vísu rétt. Þegar lesin er niðurstaða dómnefndar út í gegn er það alveg ljóst að þau voru metin þar hnífjöfn, en ég geri ráð fyrir því að dómnefndin hafi talið sér skylt vegna starfsaldurs Helgu Kress að setja hana nr. 1 og Matthías nr. 2.

En eins og ég segi: Hér hefði skipan Helgu Kress í þessa stöðu tímabundið í þrjú ár leitt til þess að núverandi staða hennar í almennum bókmenntum hefði verið auglýst laus til umsóknar, í hana þá skipað eigum við að segja tímabundið, til þess að halla ekki á að maður hefði svo viljað vera láta að hún ætti aðgang að sinni fyrri stöðu þegar Vésteinn Ólason kemur aftur að loknu leyfi. Allt þetta hefði valdið óþarfa umstangi og þess vegna, með tilliti til niðurstöðu dómnefndar, tók ég ákvörðun um skipun Matthíasar Viðars Sæmundssonar, enda heyri ég að það mælist ákaflega vel fyrir nema í röðum einstakra fulltrúa Kvennalistans.

Ég ætla ekkert að orðlengja um þetta sérstaklega, en ég hef skipað í fleiri stöður en þessa. Mér hefur ekkert verið þakkað sérstaklega fyrir það af Kvennalistanum að hafa skipað í prófessorsstöðu lyfjafræðing þar sem ég valdi konu fremur en karl þótt karlinum væri raðað einu sæti ofar en konunni. Þær þyrftu því að vera sjálfum sér samkvæmar, Kvennalistakonur. Og margt fleira mætti raunar rifja upp í sambandi við veitingu embætta í Háskóla Íslands þó að ég láti það ógert nú.