11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

223. mál, staða lektors í íslenskum bókmenntum

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 451 hef ég borið fram aðra fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi stöðu lektors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Snertir sú fsp. þá hlið þessa máls sem snýr að jafnrétti kvenna og karla. Eitt er það að sá umsækjandi um stöðuna sem ráðherra hafnaði þvert á mat dómnefndar og þvert á vilja heimspekideildar var kona, en í stað þessarar konu réð ráðherra karl í stöðuna. Hitt er það að fræðikonan sem í hlut á er brautryðjandi í íslenskum kvennarannsóknum, einkum rannsóknum á íslenskri kvennabókmenntasögu. - Og ég vil minna hæstv. ráðh. á að verk Torfhildar Hólm tilheyra íslenskum bókmenntum hvaða skoðun sem ráðherra kann að hafa á því. - Því hefur ráðherra með þessari stöðuveitingu ekki aðeins gengið fram hjá hæfri konu heldur einnig hafnað rannsóknarsviði hennar, kvennarannsóknum.

Á sama tíma og ráðherra stendur þennan veg að málum eru 104 nemendur af 152 eða tæp 70% nemenda á BA-stigi í íslensku konur. Á cand. mag.-stigi hafa 10 nemendur sótt um að ljúka prófi með ritgerð á sviði kvennarannsókna. Til þess að menn átti sig á hlutföllum er þess að geta að það ljúka venjulega einn til tveir nemendur cand. mag.-prófi á ári. Allir fastir kennarar í íslensku eru hins vegar karlar og enginn þeirra hefur kvennabókmenntir að rannsóknarsviði. Einnig er rétt að fram komi að Háskóli Íslands hefur lægsta hlutfall háskóla á Norðurlöndum af konum í föstum stöðum og um stöðu kvennarannsókna við Háskólann miðað við nágrannalöndin þarf ekki að fjölyrða. Hún er miklu lakari hér en annars staðar.

Jafnframt er Alþingi Íslendinga nýbúið að samþykkja ný lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og að auki fullgilda alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum.

Því spyr ég hæstv. ráðh. á þskj. 451 hvort hann telji þessa stöðuveitingu vera í samræmi við þessi nýju lög og þennan nýsamþykkta alþjóðasamning. Einnig vil ég minna hæstv. ráðh. á að í framkvæmdaáætlun þeirri sem samþykkt var á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairóbí síðast liðið sumar og sem Ísland er aðili að skuldbinda ríkisstjórnir aðildarríkjanna sig til að efla kvennarannsóknir bæði á vegum stofnana og einkaaðila í heimalöndum sínum og til að sýna gott fordæmi að hafa jafnrétti kynjanna jafnan að leiðarljósi við stöðuveitingar.

Lokaspurning til hæstv. ráðh. er því: Hvernig telur ráðh. umrædda stöðuveitingu samrýmast þessum samþykktum?