11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

223. mál, staða lektors í íslenskum bókmenntum

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Í 3. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna segir að hvers konar mismunun eftir kynferði sé óheimil. Jafnframt segir í 5. gr. laganna að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. varðandi ráðningu, setningu og skipun í starf, stöðuhækkun eða stöðuveitingu.

Í athugasemdum með lögum þessum segir að með mismunun sé átt við „athöfn eða athafnaleysi, hvers konar greinarmun, útilokun eða forréttindi sem skapar mismunandi stöðu karla og kvenna í raun vegna kynferðis eða atriða tengdum því.“ Hér er ekki um slíka mismunun að ræða, enda enginn greinarmunur gerður á kynferði við þessa tímabundnu ráðningu í lektorsstöðu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

Svo sem venja er til leitaði ráðuneytið umsagnar heimspekideildar Háskóla Íslands um hæfi þeirra er sóttu um lektorsstöðu í íslenskum bókmenntum. Dómnefnd, sem skipuð var á vegum heimspekideildar, komst að þeirri niðurstöðu að tveir umsækjenda væru vel hæfir til þess að gegna þessari stöðu og jafnframt að þeir sköruðu fram úr öðrum umsækjendum. Þetta var niðurstaða dómnefndarinnar eins og margsinnis hefur verið rakið. Annar þessara umsækjenda, Matthías Viðar Sæmundsson, var ráðinn tímabundið í þessa lektorsstöðu í íslenskum bókmenntum meðan sá sem skipaður er í stöðuna er í leyfi frá störfum, eins og margsinnis hefur verið tekið fram.

Hinn umsækjandinn, Helga Kress, starfar nú þegar við Háskóla Íslands og er skipuð dósent í almennum bókmenntum. Helga Kress var skipuð í lektorsstöðu í almennum bókmenntum árið 1981 og ári síðar fékk hún stöðu sinni breytt í dósentsstöðu á grundvelli framgangsreglna. Enda þótt hún hafi nú stöðuheiti dósents í almennum bókmenntum er það ekki sjálfgefið að hún hefði haldið því stöðuheiti hefði hún hafið kennslu í annarri grein. Því hefði ráðning hennar í lektorsstöðu í íslenskum bókmenntum formlega haft í för með sér stöðulækkun fyrir hana, a.m.k. þar til nýtt mat skv. framgangskerfi hefði .farið fram.

Í 9. gr. laga nr. 65/1985 segir að atvinnurekendur skuli vinna markvisst :að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Tilgangur þessa ákvæðis er að fá atvinnurekendur til þess að stuðla að því. að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Þó að það kunni að vera langsótt að halda því fram varðandi þetta mál að ákvæði þetta hafi verið brotið, og það er nú reyndar mitt álit að það sé fjarri lagi, getur verið að því verði haldið fram í umræðum sem rökstuðningi fyrir því að veita Helgu Kress starfið að engin kona sé fastráðinn kennari í íslenskum bókmenntum. Það virðist vera rétt samkvæmt kennsluskrá Háskólans. Hins vegar kenna þrjár konur í samtals fjórum námsgreinum. Meðal þeirra er Helga Kress sem kennir kvennabókmenntir svokallaðar. Hinar konurnar eru líklega lausráðnar. Í almennri bókmenntafræði eru tvær konur fastráðnar.

Þegar lög um jafnrétti kynjanna hafa verið til umfjöllunar á Alþingi haáfa verið fluttar tillögur sem gerðu ráð fyrir því að það væri beinlínis lagaskylda þegar karl og kona sæktu um stöðu og stæðu jafnfætis að flestra mati að því er hæfni til starfans varðar að konan ætti að fá stöðuna. Þetta hafa verið tillögur um svokallaða jákvæða mismunun. Því hefur verið hafnað að setja slík ákvæði í lög sem þýðir að löggjafinn sjálfur hefur hafnað þessari. afstöðu.

Ákvæði 3. gr. laga nr. 65/1985, sem kveður svo á að „sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar séu til þess að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna gangi ekki gegn lögunum“, felur ekki í sér heimild eða skyldu til almennrar jákvæðrar mismununar heldur verða slíkar aðgerðir að grundvallast á sérstökum ákvörðunum hverju sinni. Því hvílir ekki sú skylda á veitingarvaldshafa að ráða fortakslaust þann umsækjanda sem er kvenkyns í starfið þegar fleiri jafnhæfir sækja um. Ef takmarka ætti ákvörðunarvald þess sem veitir stöður með þessum hætti þarf til þess ótvírætt lagaákvæði þess efnis.

Í athugasemdum með þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fullgilda samning um afnám alls misréttis gagnvart konum kemur fram að slík löggjöf sé í samræmi við þennan samning og áð. ekki sé þörf að breyta íslenskum lögum til að geta framfylgt honum. Nægir því að vísa til þess er að framan greinir, þ.e. að ekki hafi verið um kynbundna mismunun að ræða. Í þessum samningi er ekki að finna ákvæði um jákvæða mismunun.