11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

296. mál, dagvistarrými og skóladagheimili

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég brá á það ráð að útbýta, að vísu seint og um síðir, rétt fyrir umræðuna, töflu þar sem lesa má af þær upplýsingar sem hér er beðið um vegna þess að hér er um margar stórar tölur að tefla þannig að ég áleit að þetta færi ekki vel úr hendi nema með því móti að þessari töflu yrði dreift. Þetta er sem sagt tafla sem þm. hafa nú fengið í hendur með þeim upplýsingum sem um var beðið, þ.e. hversu mörg börn á aldrinum þriggja mánaða til fimm ára eiga kost á dagvistarrými og hvort þau eru vistuð á dagheimilum eða leikskólum.

Hvað varðar skóladagheimili er lið 2 a og b í fsp. svarað sameiginlega, þar sem engin börn eldri en níu ára eru vistuð á skóladagheimilum, og upplýsingarnar eru sundurliðaðar eftir kjördæmum.

Ég vil þá aðeins nefna 1. lið í töflunni, fjölda barna á barnaheimilum: Í Reykjavík dagheimili 1446, leikskólar 2385, skóladagheimili 346. Ég sé ekki ástæðu til að þylja þessar tölur allar saman, en vek athygli þm. sérstaklega á þeim.

Spurt er um hversu hátt hlutfall dagvistunarrýma sé fyrir hendi af áætlaðri þörf. Eins og fram kemur í skýringum sem töflunni fylgja er áætluð þörf miðuð við spá sem menntmrn. gerði 1982 um byggingu nýrra dagvistarheimila 1981-1990. Þegar spáin var birt var gert ráð fyrir að hún yrði endurskoðuð á miðju áætlunartímabilinu og verður það væntanlega gert á þessu ári. Þetta hlutfall geta menn lesið í 5. lið í töflunni þar sem er hlutfallstala barna á barnaheimilum miðað við spá eins og hún var og vísa ég til þess.

Í desember 1985 voru alls 9758 börn á aldrinum þriggja mánaða til níu ára í dagvistun á landinu, þar af 2272 á dagheimilum, 7057 á leikskólum og 429 á skóladagheimilum.

Ég vænti þess að þessar upplýsingar, og þar vísa ég til hinnar dreifðu töflu, verði teknar gildar sem svar við fsp. hv. þm.