11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

296. mál, dagvistarrými og skóladagheimili

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og eins þær upplýsingar sem dreift hefur verið á borð þm. og eru hinar fróðlegustu um þetta mál og ítarlegar og einmitt gott að fá þær í þessu formi á borð manna.

Þær prósentutölur sem þarna koma fram sýna glöggt annars vegar hversu enn skortir á um fjölda dagvistarrýma og skóladagheimila auðvitað enn frekar og einmitt það hversu lítið útlit er fyrir að í lok áætlunartímabilsins, 1990, verði séð fyrir þessum þörfum á hvorn veg sem litið er. Ég held að upplýsingar þessar sýni okkur fyrst og síðast að fjárveitingavaldið hefur allt um of svelt þennan málaflokk ekki síst í ljósi þess samkomulags sem gert var á sínum tíma og hefði átt að vera bindandi fyrir fjárveitingavald og ríkisstjórn á hverjum tíma. Hér held ég að þurfi því annars vegar að taka duglega til hendi hvað fjárveitingar snertir og hins vegar að endurskoða fyrri áætlun svo sem fyrirhugað var, en ekki er enn þá hafið svo sem fram kemur í svari hæstv. ráðh.

Ég skal því ekki fjölyrða um þessar upplýsingar nú. Þær eru hér til skoðunar og menn geta virt þær fyrir sér, hversu langt er enn þá í land í þessu efni, en ég skora á hæstv. ráðh. í lokin að beita sér fyrir hvoru tveggja, þ.e. auknum fjárveitingum og endurskoðun áætlunarinnar, af þeim röskleika sem hann er í ýmsu öðru þekktur fyrir og kannske kom ekki hvað síst í ljós í ummælum hæstv. ráðh. áðan: Hér er það ég sem ræð og það skiptir máli.