11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

297. mál, húsnæðismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hún er ánægjuleg þessi gífurlega bjartsýni sem gripið hefur um sig meðal stjórnarliða með hækkandi sól í sambandi við húsnæðismálin. En það er talandi dæmi um ástirnar í þessum málaflokki á stjórnarheimilinu að tveir stjórnarliðar, stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., skuli eiga orðastað um þetta í fyrirspurnatíma í símskeytastíl.

Það liggur fyrir, herra forseti; þrátt fyrir svör félmrh. hér og þrátt fyrir bjartsýnina og þrátt fyrir þær miklu aðgerðir sem væntanlega standa fyrir dyrum í kjölfar nýgerðra kjarasamninga að vandi þess fólks sem verst hefur orðið úti vegna stefnu ríkisstj. í efnahags- og kjaramálum, húsbyggjenda sérstaklega, er enn að verulegu leyti óleystur og það sem jafnvel verra er: Hann hleður utan á sig eins og snjóbolti á leið niður brekku.

Tíminn leyfir ekki efnislega umræðu um húsnæðismál, en virðingin fyrir vandamálum þessa fólks er í knappasta lagi, herra forseti, að eyða ekki meira en tveimur mínútum og örstuttum athugasemdum í að ræða þetta vandamál á þinginu.