11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

308. mál, ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Sunnudaginn 16. febr. s.l. var haldinn fundur í Háskólabíói á vegum Áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum og Lögverndar. Fyrir troðfullu húsi voru raktar frásagnir um fólk, það var reyndar ekki bjartsýnisfólk, herra forseti, sem orðið hefur gjaldþrota, lent á nauðungaruppboðum með eignir sínar, lent í hringiðu bankaviðskipta og rándýrrar lögfræðiþjónustu. Samt vinnur það a.m.k. tvöfaldan vinnudag, en berst þó í bökkum.

Aðgerðir þessarar ríkisstj. í efnahagsmálum og aðgerðarleysi hennar í húsnæðismálum hafa leitt stóran hóp manna í fátækragildru þar sem ríkir örvænting, félagsleg upplausn og persónuleg ógæfa.

Ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. hafði tækifæri til að sækja þennan fund, en það hefði örugglega reynst honum lærdómsríkt.

Greiðslubyrði á s.l. ári vegna hækkaðra raunvaxta varð 33% hærri en á árinu 1982. Þróun fasteignaverðs hefur verið svo óhagstæð undanfarið ár að þeir húsbyggjendur sem áttu í erfiðleikum árið 1984 eru enn þá verr staddir eftir árið 1985. Lánskjaravísitalan hefur hækkað um tæplega 20% meira en söluverð íbúðanna. Það þýðir einfaldlega að skuldir húseigenda hafa hækkað mun meira en íbúðir þeirra. Þetta jafngildir því að þeir sem áttu 15% af eignum sínum skuldlausar, en höfðu verðtryggð lán fyrir 85% á árinu 1984, eru nú eignalausir menn, jafnvel þótt þeir hafi getað staðið í skilum með allar greiðslur.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit og neyðarlánafyrirgreiðslu, sem sannarlega er þörf og tímabær, hafa þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið hvergi nærri ratað til allra þeirra sem í mestum erfiðleikum eiga né hafa þær, að því er virðist, bætt aðstæður þeirra nægilega sem hafa notið þeirra. Það er því enn stór hópur manna sem á í verulegum vandræðum, vandræðum sem þessi ríkisstj. hefur bakað þeim. Ríkisstj. úthlutaði mönnum hurðarásum sem þeim var ætlað að bera um öxl. Á hvern hátt hefur ríkisstj. axlað þá ábyrgð sem hún hlýtur að bera gagnvart afleiðingum gjörða sinna? Á hvern hátt hefur hún staðið að því að leysa þann vanda sem af verkum hennar hlaust? Og ég leyfi mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. um ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar ríkisins:

1. Hve margir hafa leitað til ráðgjafarþjónustunnar eftir að hún var opnuð öðru sinni og óskað eftir viðbótarlánum og annarri fyrirgreiðslu?

2. Er það fólk, sem nú leitar til þjónustunnar, sama fólkið og fékk viðbótarlán á síðasta ári?

3. Hvaða skilyrði setur ráðgjafarþjónustan fyrir viðbótarlánum?

4. Hvað er gert fyrir það fólk sem ekki fullnægir skilyrðum og getur ekki staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum?

5. Er vitað hve margir hafa misst húsnæði sitt á síðustu misserum?