11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

308. mál, ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans. Þessi ráðgjafarþjónusta er mjög þörf og tímabær og reyndar hefði hún átt að vera komin á fyrr. Mér finnst svör hans benda til þess að þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið nýtist fólki ekki nærri nógu vel. Ef ég heyrði rétt eru u.þ.b. 28% þeirra sem koma til þjónustunnar fólk sem reynt hefur áður að standa við skuldbindingar sínar og hlíta ráðgjöf þjónustunnar. Mér finnst það benda til þess að þau úrræði sem hafa verið tekin duga ekki nógu vel. Enn fremur hef ég heyrt að það sé allt að því sex vikna bið eftir að hljóta þessa ráðgjöf. Þarna er um að ræða 400 umsóknir, auk annarra sem hafa leitað til þjónustunnar en hafa ekki verið í greiðsluerfiðleikum, og það er vel að menn geti sótt til þessarar ráðgjafar ráð af ýmsu tagi, en þær upplýsingar sem ég hef eru þær að hún verki í raun ekki nógu vel vegna þess að menn komast ekki nógu fljótt til að hljóta þá ráðgjöf sem þeir hafa þörf fyrir.

Í sambandi við svar hæstv. ráðh. við 4. spurningunni, hvað er gert fyrir það fólk sem ekki fullnægir skilyrðum og getur ekki staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum, þá er það einfaldlega vegna þess að það er búið að tapa öllu sem það á í því happdrætti sem húsnæðismarkaðurinn er orðinn. Það er búið að tapa öllum veðum. Það hefur enga ábyrgðarmenn til að veðsetja lengur því að fjölskylda þess er ölI veðsett. Þessi hópur held ég að sé vaxandi. Það kom fram á þessum fundi í Háskólabíói að það var nokkur fjöldi manna, sem þar var kominn og talaði, sem var einmitt í þeim sporum og hafði enga úrlausn fengið.