11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

308. mál, ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í sambandi við þau ummæli sem 3. landsk. þm. viðhafði áðan í sambandi við ráðgjafarþjónustuna vil ég leiðrétta það hér og nú að það er ekki biðlisti við stofnunina núna. Það er búið að breyta aðstöðunni til að taka á móti umsóknum og annast afgreiðslu mála með fjölgun fólks í þetta hlutverk og einnig er núna verið að taka í notkun nýtt húsnæði með allri aðstöðu við Húsnæðisstofnunina til að sinna þessu verkefni sem ég geri ráð fyrir svo og allir sem nálægt þessu koma að muni aukast mjög á næstu dögum og vikum. Ef það á að marka erfiðleika fólks, sem allir telja sig vita um, hlýtur það að ske. Það yrðu þá ekki fá hundruð heldur mörg þúsund sem hljóta að leita til ráðgjafarstofnunarinnar og fá þar alhliða afgreiðslu og jafnframt hjá bankakerfinu sem hefur tjáð sig fúst til að ganga til móts við að leysa vanda þessa fólks.

Það er alveg ljóst að sama er hvernig við ræðum þessi mál. Það er alltaf til fjöldi fólks sem hefur lent í slíkum vandamálum af margvíslegum ástæðum sem eiga ekkert skylt við húsnæðismál. Slíkt fólk fellur ekki undir neinar ákveðnar reglur. Þetta er einstaklingsbundið og verður að skoða það í því ljósi. Ég bendi á að þessi ráðgjafarstofnun gerir einmitt tillögur um slíkt og reynir að leysa úr þessum vanda eftir því sem í mannlegu valdi stendur þó að sumt sé óleysanlegt.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta meira í fyrirspurnatíma. Ég tel mig hafa svarað þeim beinu spurningum sem voru lagðar fram. Ég undirstrika enn mikilvægi þessarar ráðgjafarstofnunar og að fólk leiti þangað, ekki aðeins til að leysa vanda sem það er komið í heldur til að fá ráðleggingar um hvernig á að komast hjá því að lenda í slíkum vanda. Því getur ráðgjafarþjónustan leyst úr. Hún hefur sett upp reiknilíkan um hvernig greiðslubyrði er, hverjir möguleikar eru á lánum og hvernig skynsamlegt er að standa að fjárfestingum. Það er ekki síður atriði sem þarf að leggja miklu meiri rækt við en gert hefur verið þannig að fólk geti fengið raunverulega ráðgjöf til að leysa úr sínum málum og spá fram í framtíðina einnig.