11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

310. mál, störf milliþinganefndar um húsnæðismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mun leitast við að svara fsp. á þskj. 575 frá hv. 3. landsk. þm. þar sem hún spyr um hvernig miði störfum milliþinganefndar um húsnæðismál.

Nefndin, eins og kom fram í máli hennar, skilaði áfangaskýrslu 7. des. 1985 og gerði ráð fyrir í því bréfi sem fylgdi með að eftir áramótin, þ.e. í byrjun þessa árs, skuli nefndin vinna að tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála og nýtt húsnæðislánakerfi í samræmi við skipunarbréf frá 11. júlí 1985.

Það sem nefndin sendi frá sér 7. desember var í aðalatriðum að á þessu ári verði 200 millj. kr. úr Byggingarsjóði ríkisins varið til að létta greiðslubyrði íbúðaeigenda sem þegar er komið til framkvæmda. Ríkisstj. geri nauðsynlegar ráðstafanir til að húseigendur sem hafa þunga greiðslubyrði vegna íbúðalána fái skuldbreytingu og lengingu lána í bönkum og sparisjóðum. Það hefur einnig verið á dagskrá og komið til framkvæmda. Einnig lagði hún til að lagfæringar verði gerðar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt varðandi frádrátt vaxta og verðbóta á lánum til íbúðarhúsnæðis þannig að réttur skattgreiðanda verði ótvíræður. Þá gerði nefndin einnig tillögur um breytingar á lánareglum þannig að það verði meiri áhersla lögð á hærri lán til þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn.

Nefndin gerði í grg. grein fyrir þessu. Ég vil aðeins geta þess, af því að það virðist gleymast oft í þessum umræðum, að í kjölfarið á þessu áliti nefndarinnar voru samþykkt lög fyrir áramót um frádráttarbærni vaxta og verðbóta í sambandi við álagningu tekjuskatts, það eru lög nr. 118, þar sem mjög eru lagfærð ákvæði í skattalögum, þ.e. lengdur sá tími sem fólk fær að draga frá vexti í sambandi við húsnæðiskaup úr þremur árum í fjögur ár og úr sex árum í sjö ár. Þessi ákvæði eru gerð skýrari í skattalögum en áður voru og koma til framkvæmda í sambandi við ákvörðun um tekjuskatta á þessu ári. Þetta var samkvæmt tillögum nefndarinnar og ríkisstj. og Alþingi afgreiddi þetta fyrir jól.

Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda hefur nefndin viðað að sér miklum gögnum í sambandi við þessi mál öll og hefur verið sammála um að vinna ötullega að þessum málum. Hins vegar voru menn sammála um að eftir að ljóst var að aðilar vinnumarkaðarins mundu láta til sín taka í sambandi við húsnæðismálin með nýjum tón, sem eftir er að útfæra nánar í starfshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, þætti eðlilegt að biðstaða yrði í frekara starfi nefndarinnar á meðan þau mál væru að skýrast. Ég geri ráð fyrir að ef allt verður eins og reiknað er með líði ekki langur tími þangað til línur skýrast í þessu máli þannig að ákvörðun liggi fyrir um þetta nýja fyrirkomulag miðað við það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu og ríkisstj. hefur tekið jákvætt undir. Í framhaldi af því verður starf þessarar milliþinganefndar skoðað. Ég féllst á þá skoðun formanns nefndarinnar að eðlilegt væri að bíða með framhald á störfum nefndarinnar þangað til þetta lægi fyrir.