11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

310. mál, störf milliþinganefndar um húsnæðismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við það sem hér hefur komið fram. Í fyrsta lagi vil ég segja það sem svar til hv. 3. þm. Reykv. að það hefur aldrei verið meiningin að nýta ekki þá vinnu sem þessi ágæta nefnd, milliþinganefnd, hefur unnið frá því hún var sett á laggirnar á síðastliðnu ári. Síður en svo. Hún hefur unnið mjög gott verk og það verður tekið til viðmiðunar þegar við mótum þessa stefnu. Það er alls ekki þar með sagt, þó að ég hafi sagt að hennar álit kæmi ekki fram meðan verið er að vinna í útfærslu á því samkomulagi sem var gert við aðila vinnumarkaðarins, að hún sé þar með úr sögunni - síður en svo.

Út frá því sem hv. sami þm., 3. þm. Reykv., spurðist fyrir um, hvenær ríkisstj. hefði hugsað sér að koma með þá útfærslu sem hér er um að ræða, bendi ég aðeins á að í sambandi við það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu stendur í lokasetningu í því samkomulagi: „Samningsaðilar eru sammála því að starfshópur aðila útfæri þær tillögur sem gerð hefur verið grein fyrir að framan í þessu sambandi í samráði við stjórnvöld og skal slíkur starfshópur m.a. hafa það hlutverk að útbúa frumvarp til laga vegna þessara mála.“

Á ríkisstjórnarfundi í morgun lá aðeins fyrir tilnefning fulltrúa í þessa nefnd frá Alþýðusambandi Íslands og leitað er eftir því núna að tilnefning komi frá hinum aðilanum í sambandi við þetta samkomulag. Ríkisstj. mun samstundis og hún liggur fyrir tilnefna þá fulltrúa sem eiga að vera af hennar hálfu í þessari nefnd. Þannig að það er að koma skriður á þessi mál og að því verður unnið í fullri alvöru að koma þeim fram.

Vegna fsp. hv. 3. landsk. þm. get ég fullvissað hann um að ég, sem félmrh., og mínir ráðgjafar fylgdust vel með samningagerð aðila vinnumarkaðarins í sambandi við þessi mál. Við vorum ekki aðilar að þessu samkomulagi, enda hljóta allir að sjá að það væri óeðlilegt. Þetta eru frjálsir samningar aðila vinnumarkaðarins og auðvitað eiga þeir að fjalla um þá sín á milli án þess að stjórnvöld séu að skipta sér af því samkomulagi nema eftir því sem til þeirra verður leitað. Þar af leiðandi er alveg út í hött að halda því fram að milliþinganefnd eða félmrn. hefðu átt að vera aðilar að þessu samkomulagi þessara aðila meðan það var á vinnslustigi. Um það var ekki að ræða.

Ég vil undirstrika að milliþinganefndin er enn við lýði og hefur unnið mjög mikið verk og greitt hefur verið fyrir því að hún gæti fengið allar þær upplýsingar sem hún hefur óskað eftir. Ég veit að hún hefur unnið mjög mikið starf og það liggur mikill efniviður í hennar höndum sem ég vonast til að hún geti unnið úr þó að einhver töf verði á hennar starfi meðan verið er að vinna úr því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu. Það er ekki útilokað að þessi starfshópur verði kallaður til í sambandi við það mál. Það er alls ekki útilokað.