11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

314. mál, fjárhagsvandi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar

Fyrirspyrjandi (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka iðnrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér á undan. Þau koma mér ekki svo sérstaklega á óvart. Ég vil þó lýsa ánægju minni yfir því að hann skuli upplýsa að vilji sé fyrir því í iðnrn. að kanna þá hugmynd sem hann nefndi um sameiningu orkufyrirtækja. Ég held að það sé hugmynd sem vert er að skoða. En það verður þó að segjast eins og er að í því efni þurfa menn að hafa alllangan tíma fyrir sér. Ég á því ekki von á að niðurstaða fáist í því efni jafnfljótt og hitaveitan þarf á að halda. Því hygg ég, eins og hér kom fram í ræðum fyrri ræðumanna, að fjárhagsvandi hitaveitunnar sé svo mikill að hjá því verði ekki komist að taka á þeim vanda á einn eða annan hátt sem allra fyrst. Þá er ég ekki að tala um ár í því sambandi heldur vikur eða mánuði.

Það er rétt, eins og iðnrh. nefndi líka, að stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hefur enn ekki tekið ákvörðun um það hvort af 7% lækkun gjaldskrár verður. Það verður væntanlega gert í lok þessarar viku eða næstu. Það er ekki óeðlilegt, eins og ég sagði þegar ég fylgdi minni spurningu úr hlaði, að krefjast einhverra upplýsinga um það hvernig ríkisvaldið hyggist aðstoða hitaveitur sem þessa áður en slík ákvörðun væri tekin. Og þó að það sé rétt, sem ráðherra nefndi, að um það var ekki spurt í minni fsp. hver afstaða stjórnvalda væri til gjaldskrárbreytinga annarra hitaveitna held ég að fróðlegt hefði verið í þessum umræðum að fá það upplýst hvort stjórnvöld sætti sig við, miðað við þá samninga sem gerðir voru nýlega, að aðrar hitaveitur á landinu lækki gjaldskrár sínar um 2, 3 eða 5%. Eru menn þar að efna þá samninga sem gerðir voru og sætta stjórnvöld sig við það? Vissulega værum við á Akranesi og í Borgarfirði ánægð með það hitaveitunnar vegna ef við gætum komist upp með það að lækka gjaldskrána ekki nema um 2 eða 3%.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta að sinni. Vissulega væri ástæða til að ræða málefni hitaveitunnar miklum mun ítarlegar en tækifæri gefst til hér, tildrög þessa vanda o.s.frv., en ég læt staðar numið og þakka þau svör sem hafa komið fram.