30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að vekja athygli hæstv. félmrh. á því að við höfum séð framan í stjfrv. í tíð þessarar ríkisstj. án þess að fullt samkomulag hafi ríkt um þau þegar þeir pappírar voru sýndir á hv. Alþingi. Nægir að nefna afstöðu stjórnarflokkanna til útvarpslagafrv. í fyrra og ummæli sem hér féllu fyrir nokkrum dögum þegar frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga var lagt fram og ekki færri en tveir hv. þm. Sjálfstfl. komu hér í pontu og lýstu fyrirvörum sínum og síns flokks um ýmis atriði í því frv.

Það er því ljóst að til eru a.m.k. tvær leiðir, hæstv. félmrh., til að leggja fram stjfrv. Önnur er sú að leggja fram venjulegt stjfrv. sem ríkisstjórnin og báðir eða allir aðstandendur hennar styðja og hin leiðin er að leggja fram einhverja pappíra sem menn hafa fulla fyrirvara á um og alveg er undir hælinn lagt hvernig verða afgreiddir.

Það er þá eðlilegt að maður spyrji hæstv. félmrh.: Mun hann ekki grípa til þess, ef ekki dregur saman innan tíðar með stjórnarflokkunum í þessu máli, að leggja hér fram frv. og lofa þá Sjálfstfl. að hafa þá fyrirvara á sem honum finnst eðlilegir eins og alsiða er greinilega hjá hæstv. ríkisstj. að gera?

Ég átti svo sem ekki von á því, herra forseti, að hér kæmi svarið: 23. nóvember kl. 14.35 eða eitthvað svoleiðis. En ég dreg þann lærdóm af svari hæstv. félmrh. að það sé algerlega í óvissu hvenær og hvort eitthvert frv. um búseturétt verður lagt fram á þessu þingi. Ég dreg þann lærdóm af reynslu minni af ummælum, svörum og orðum, sem hér hafa fallið í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. og ráðherratíð hæstv. félmrh. Alexanders Stefánssonar, að það sé gersamlega í óvissu og þoku hvort og hvenær eitthvert frv. lítur dagsins ljós af hálfu ríkisstj. í þessu máli.

Það hefði verið gaman, herra forseti, að taka þátt í þessum hjartnæmu ræðuhöldum hv. 2. þm. Norðurl. e. um verkamannabústaðakerfið. Það var ánægjulegt að heyra þm. Sjálfstfl. tala af slíkri innlifun um það ágæta kerfi og þá mannúðarstefnu í húsnæðismálum sem tengist því m.a. Ég fagna því að sjálfsögðu eins og ég fagna því að þessi hv. þm. og sérstakur talsmaður Sjálfstfl. í húsnæðismálum sækir nú fyrirmyndir sínar til Norðurlandanna án þess að ég sé að segja endilega að þar sé allt gott sem gjört er í húsnæðismálum. En það er vissulega framför að heyra hv. þm. Sjálfstfl. tala með þessu hætti um verkamannabústaðakerfið sem hingað til hefur nú komið fremur í hlut annarra að verja og berjast fyrir.

En ég vil segja í tveimur setningum í lokin, herra forseti, að mannúðarstefna þessarar ríkisstj. í húsnæðismálum birtist öðru fremur þessa dagana í fjölda nauðungaruppboða og sennilega er það viðhorfið til verkamannabústaðakerfisins, sem endurspeglast í niðurskurði fjárveitinga til þess kerfis eins og liggur nú fyrir í fjárlögum, sem mun að líkindum verða til þess, ef það stendur óbreytt, að verkamannabústaðakerfið getur engri nýrri starfsemi hleypt af stað á næsta ári og rétt getur staðið við þegar gerðar og lögboðnar skuldbindingar sínar með því fjármagni sem því er nú ætlað af hálfu hæstv. ríkisstj. Þannig birtist sem sagt velvildin til verkamannabústaðakerfisins og mannúðarstefnan í húsnæðismálum þessarar ríkisstj. sem hv. þm. hafði svo fögur orð uppi um að við lá að menn tárfelldu í salnum, svo hjartnæm var ræða hans, þ.e. í nauðungaruppboðum og niðurskurði á fjárveitingum.