11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

280. mál, starf ríkissaksóknara

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Á þskj. 516 hef ég leyft mér að flytja fyrirspurn til dómsmrh. um úrskurð hans vegna starfa ríkissaksóknara. Spurningin hljóðar þannig:

„Hver eru rök ráðherra fyrir úrskurði hans frá 18. okt. 1985 um að ekki séu efnis- eða lagarök fyrir ósk Tómasar Gunnarssonar lögmanns um að ráðuneytið skipi löghæfan mann til að endurupptaka og gegna starfi saksóknara í máli ákæruvaldsins gegn Þorgeiri Þorgeirssyni, nr. 3445/1985, fyrir Sakadómi Reykjavíkur?"

Í sem allra skemmstu máli er um það að ræða að einstaklingur er ákærður. Þessi sami ákærði einstaklingur telur einstök kæruatriði brot á lögum. Hann vill skjóta efnisatriðum kærunnar til úrskurðar Hæstaréttar, þ.e. hann kærir í raun og veru ákæruna og þar með ákæruvaldið. Ríkissaksóknari, þ.e. ákæruvaldið, neitar að málið fari til Hæstaréttar og úrskurðar þannig í raun og veru í eigin máli sem, að mínu áliti alla vega, telst tvímælalaust vera árekstur hagsmuna. Lögmaður hins ákærða skýtur málinu til dómsmrh. sem úrskurðar þannig, eins og fyrr segir í fsp., 18. okt. 1985, að ekki séu efnis- eða lagarök fyrir þeirri ósk.

Fyrirspurn mín er sem sé einfaldlega þess eðlis, hvernig dómsmrh. rökstyðji þessa niðurstöðu sína.