11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

280. mál, starf ríkissaksóknara

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þetta. Út af fyrir sig gaf ræða fyrirspyrjanda ekki tilefni til þess. Ég vil aðeins ítreka að það var krafa ákærða að dómarinn viki vegna þess að saksóknari mætti ekki í réttinum. Og saksóknari mætti ekki í réttinum af því að Alþingi hefur sett þau lög að honum beri ekki að mæta í málum sem þessum.

Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að deila megi um það hvort ekki eigi að breyta slíkum lögum. En á meðan þessi lög gilda hlýtur saksóknari að fara eftir þeim, og að dómari eigi að víkja í máli af því að saksóknari fer eftir þeim lögum sem Alþingi hefur sett um hans starf - það held ég að flestir hljóti að viðurkenna að er nokkuð langsótt.