11.03.1986
Sameinað þing: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3070 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

315. mál, fjárstuðningur við Handknattleikssamband Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég er hlynntur því að við veitum fjármunum til íþróttastarfsemi í landinu og tel að með því móti vinnum við gegn fíkniefnaneyslu og mörgu öðru sem miður fer. Ég set aftur á móti vissar spurningar við þessa þáltill. fyrst og fremst vegna þess að í henni er hlutverkum snúið við.

Það er Alþingis að ákveða fjárlög, það er ekki fjmrh. Alþingi heimilar fjmrh. að greiða úr ríkissjóði ákveðnar upphæðir til tiltekinna mála, Alþingi skorar ekki á fjmrh. að gera slíkt. Ef Alþingi samþykkir fyrst að skora á fjmrh. að gera slíkt verður fjmrh. seinna að koma með beiðni um heimild hjá Alþingi til þess að mega verða við áskoruninni.

Þetta er út af fyrir sig spurning um form en ekki inntak. Þetta er spurningin um það hvort við séum að samþykkja fjárlög, sem eiga þá með réttu að afgreiðast fyrir jól með þremur umræðum, eða hvort við erum að taka ákvörðun um að þingið líti svo á að fjárveitingavaldið sé hjá fjmrh. og hann eigi að taka við áskorunum frá þinginu um hvernig hann ráðstafar fjármunum.

Mér sýnist að formsins vegna sé á því þó nokkuð mikill meinbugur að stilla hlutunum upp á þennan hátt. Ég fæ ekki séð að það þurfi nauðsynlega að afgreiða svona mál á þann hátt að fyrst sé skorað á fjmrh. að beita aukafjárveitingavaldi. Hvað dvelur Alþingi Íslendinga í að samþykkja heimild ef menn vilja gera þetta? Ef það er ekki gert þarf aftur að leita til þingsins.

Ég undirstrika þetta vegna þess að mér finnst stundum að það gleymist hér í sölum þingsins hvar verkaskiptingin er á milli Alþingis og framkvæmdavalds. Með því að segja þetta hér og nú er ég ekki að leggjast gegn því að Alþingi Íslendinga samþykki fjárveitingar til íþróttamála.