11.03.1986
Sameinað þing: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

315. mál, fjárstuðningur við Handknattleikssamband Íslands

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég tek svo sannarlega undir það með hæstv. iðnrh. að hér hefði verið full ástæða til að flytja till. um miklu veglegri upphæð en hér er sett á blað og styrk til miklu fleiri en eingöngu til þessa eina íþróttasérsambands. En mér sýnist að þessi till. eigi nógu erfitt uppdráttar þó að ekki hefði verið farið að sýna þá dirfsku að hækka upphæðina og víkka þann ramma sem till. fjallar um.

Hér hafa nokkrir þm. tekið til máls og ég hef ekki hugsað mér að fara að karpa mikið við þá, en mér finnst því miður að rök þeirra séu ákaflega lágreist og sýni lítinn skilning. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum, það miklum vonbrigðum að ég hef ekki skap í mér til að fara að rökræða mikið við hv. þm.

Þau rök hjá hv. 2. þm. Austurl. og sporgöngumönnum hans hér í ræðustólinn að ekki væri hægt að veita 5 millj. kr. fjárveitingu til Handknattleikssambandsins nú vegna þess að það væru svo mörg önnur mál sem þyrftu á aðstoð að halda standast náttúrlega ekki og eru rökleysa. Ekki skal ég draga úr því að það séu mörg þjóðþrifamálin sem þurfa á auknum fjárstuðningi að halda frá hinu opinbera, en ef við ætlum sífellt að segja að það sé ekki hægt að styðja eitt af því að þá verði annað út undan verður lítið um fjárveitingar yfirleitt. Ég held að þingmenn verði að vera menn til að axla þá ábyrgð, þegar tillögur koma fram um einhver tiltekin mál, að segja af eða á um hvort þeir séu með því eða móti alveg án tillits til þess hvort önnur mál fái framlög í leiðinni. Þau geta fylgt í kjölfarið og við getum tekið efnislega afstöðu til hvers og eins máls sem fram er borið, en það er útilokað að hafna öllum góðum málum á þeirri forsendu að einhver önnur verði út undan á sama tíma.

Mér finnst enn fremur að þessi málflutningur sýni ákaflega mikinn skilningsskort á aðstöðunni sem ríkir innan íþróttahreyfingarinnar. Það er rétt, sem hv. 7. landsk. þm. segir, að íþróttahreyfingin fær 22 millj. kr. á fjárlögum. Í augum viðkomandi þm. er það sjálfsagt myndarleg fjárveiting, en það er sáralítið brot af því sem íþróttahreyfingin þarf á að halda og fullyrði ég að í stærstu samböndunum er það um það bil 5% af öllum kostnaði sem hlýst af rekstri slíkra íþróttasamtaka.

Það verður auðvitað að lifa við þá staðreynd að ríkissjóður og fjárveitingavaldið hefur ekki treyst sér til að láta meira fé af hendi rakna til þessarar íþrótta- og uppeldishreyfingar, enda reynir hún eftir bestu getu að bjarga sér sjálf.

Ég hef ekki verið að halda því fram að fjárveitingar til íþróttahreyfingarinnar ættu að byggjast á því hversu vel gangi hverju sinni og menn eigi að hlaupa upp til handa og fóta í hvert skipti sem einhver leikur vinnst eða met er sett og segja: Nú skulum við hækka fjárveitingar. Auðvitað eiga fjárveitingarnar að vera myndarlegar og þær eiga að vera miklu, miklu hærri í þágu íþróttanna en nú er vegna þess að ég held að peningunum sé vel varið út frá þeirri þjóðfélagslegu staðreynd að íþróttir laða fram heilbrigði og góðan félagslegan þroska hjá þátttakendum og laða æskuna til hollrar tómstundaiðju í stað þess að sækja í spillingu og annað sem miður er í þjóðfélaginu. Ég held að þeim peningum sé vel varið. Eins og réttilega er tekið fram af hv. 2. þm. Austurl. er það mikið og gott forvarnarstarf sem unnið er í þessari hreyfingu. En látum þetta liggja á milli hluta.

Að því er varðar þá tilteknu keppni sem hér er verið að fjalla um, þá hélt ég að mönnum væri ljóst að sá árangur sem náðst hefur í þessari heimsmeistarakeppni er ávöxtur af gífurlega miklum undirbúningi, undirbúningi bæði keppenda og aðstandenda, stjórnar og starfsmanna viðkomandi íþróttagreinar sem hafa lagt mjög mikið af mörkum, bæði í tíma og peningum, sem þeir hafa ekki talið eftir sér. Ég held að þetta hafi sannað að árangri er hægt að ná þegar menn leggja að sér, með því að leggja mikið í að undirbúa sig sem best og spara hvergi til. Þeir hafa fórnað tíma og vinnu. Þeir hafa vikum, mánuðum og jafnvel árum saman lifað og hrærst í undirbúningi þessarar keppni. Nú höfum við orðið vitni að því að þeir hafa náð lengra en björtustu vonir stóðu til og þjóðin hefur fagnað þessum íslensku íþróttamönnum og klappar þeim lof í lófa. Ég held að það sem nú hefur verið gert sýni og staðfesti að Íslendingar, þó að þeir séu smáþjóð, geta unnið afrek á íþróttasviðinu ef rétt er að staðið og ef vel er að þeim hlúð.

Handknattleiksambandið hefur kostað miklum peningum til og einstaklingar sem þar eiga hlut að máli. Ég get ekki upplýst þingheim um hversu miklir peningar það eru, en þeir skipta tugum milljóna í undirbúningi, launum, ferðalögum, vinnutapi, uppihaldi hér og erlendis. Þó að Handknattleikssambandið hafi staðið myndarlega að fjáröflun nást endar engan veginn saman. Ég hélt þess vegna að það væri í samræmi við þann hljómgrunn sem er í landinu að þingið þakkaði fyrir sig fyrir hönd þjóðarinnar með því að veita lítinn aukastyrk til þessara manna. Það veldur mér þess vegna vonbrigðum þegar upp stendur hver þm. á fætur öðrum til að andæfa gegn þessari till. Jafnvel gengur hv. 5. þm. Vestf. svo langt að þvæla um formsatriði og telja að þessi till. sé óþingleg og að það sé ekki nægilegt að Alþingi skori á fjmrh. að veita 5 millj. kr. til Handknattleikssambandsins með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég held að þetta sé hin mesta bábilja, útúrsnúningur og tilraun til að drepa þessu máli á dreif.

Hv. 7. landsk. þm. heldur því fram að hér sé um að ræða popp-pólitík. Nú er ekki hægt að saka mig um að hafa verið mikið í popp-pólitík eins og ýmsir aðrir hv. þm. á þessu þingi. Þetta er fyrsta till. sem ég flyt hér og hefur þó verið ærin ástæða til að slá sér upp á ýmsum popp-málum í vetur. Það hafa sumir þingmenn nýtt sér, en það vakir ekki fyrir mér. Ég þarf ekki á því að halda að slá mig til riddara í augum íþróttahreyfingarinnar. Ég stend og fell með því sem ég hef unnið í hennar þágu fram að þessu og ég held að ég þurfi ekki á neinum poppmálum að halda í þeim efnum.

Þessi till. er flutt í einlægni, kannske einhverju hrifnæmi eins og var sagt áðan, vegna þess að mér fannst vera full ástæða til þess að Alþingi þakkaði fyrir sig fyrir hönd þjóðarinnar með því að verðlauna í viðurkenningarskyni það íþróttasamband sem hér á hlut að máli.

Ég tel ekki ástæðu til að vera að karpa frekar um þetta mál. Ég held að það sé ljóst að annaðhvort samþykki þingið þessa till. eða ekki. Ef menn vilja láta smásálarskapinn ráða ferðinni verður auðvitað að sætta sig við það, en það veldur mér vonbrigðum. Ég hafði haldið að þetta mál væri ekki ofvaxið að samþykkja og það væri þinginu til sóma að sýna íslenskum afreksmönnum þessa litlu viðurkenningu með hliðsjón af árangri þeirra og þó sérstaklega með hliðsjón af því mikla undirbúningsstarfi sem þeir hafa unnið.

Að lokum vil ég taka fram að hæstv. forseti hefur vakið athygli mína á því að það sé eðlilegra og þinglegra að vísa þessari till. til þeirrar nefndar sem fer með málefni af því tagi sem hér er verið að fjalla um, það sé ekki venja að vísa málum sem þessum til fjvn. Dreg ég því þá tillögu til baka og legg til að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til félmn. að þingheimur gleymi því formsatriði. Ég hef aftur á móti ekki talað gegn þessari till. og mun styðja hana komi hún fram með þeim hætti að mér finnist að ég sé ekki jafnframt að lýsa því yfir að fjárveitingavaldið sé hjá fjmrh. því að það er nú einu sinni eitt af elstu átakamálunum á milli þingræðis og framkvæmdavalds hvar fjárveitingavaldið eigi að vera.