12.03.1986
Efri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3078 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Enda þótt hv. 9. þm. Reykv. Haraldur Ólafsson sé fjarverandi, formaður menntmn. þessarar hv. deildar, sé ég mig knúinn til að vekja athygli á því að mér þykir sem starf þeirrar nefndar hafi ekki verið með þeim hætti sem vera skyldi. Þrír fundir hafa verið haldnir í menntmn., sá síðasti 17. desember. Síðan hefur það gerst að þremur frv. hefur verið vísað til nefndarinnar, frv. til breytinga á útvarpslögum, frv. til breytinga á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands og frv. um fjarnám ríkisins. Þessum þremur málum var vísað til menntmn. 17. febrúar s.l. og enginn fundur, svo að mér sé kunnugt um, hefur verið boðaður í nefndinni síðan. Mér finnast þetta ekki vinnubrögð við hæfi. Nú er aðeins eftir ein heil vinnuvika þar til kemur að páskum og svo segir mér hugur um að þing muni kannske ekki starfa mjög margar heilar vikur eftir páska. Raunar er eins og venjulega allt í óvissu um það hjá óbreyttum þm. hvenær þingstörfum muni ljúka eða hvenær stefnt sé að þinglokum. Ég vil, enda þótt hv. þm. Haraldur Ólafsson sé því miður fjarverandi, engu að síður koma þessum áminningum á framfæri því að ég held að hér þurfi betur á að halda.