12.03.1986
Efri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

302. mál, veð

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði á liðnu sumri til ráðuneytis um fiskeldismál við ríkisstj. Sú nefnd fjallaði að sjálfsögðu um það mál sem hér er nú til umræðu. Það er held ég alveg ótvírætt skoðun allra sem um það hafa fjallað að frv. taki jafnt til svokallaðra fiskiræktarstöðva og fiskeldisstöðva, þ.e. að seiði má að sjálfsögðu veðsetja alveg eins og eldri fisk. Ég held að það fari ekkert milli mála.

Hitt er kannske meira álitamál hvort þetta frv. taki beint til hrogna. Þau eru ekki nefnd, það er rétt, en eðli málsins samkvæmt held ég að frv. geti líka tekið til hrogna.

Hv. 5. þm. Vesturl. spurði hvort hægt væri að upplýsa hvort hrogn væri hægt að tryggja. Það er hægt. Það er gert t.d. í Noregi. Þar er hægt að tryggja allt sem lífs er í stöðinni alveg eins og fastafjármuni, áhöld o.s.frv. Þetta frv. miðar einmitt að því að færa reglur hér á landi í svipað horf og er þar sem fiskirækt hefur náð mestri útbreiðslu, hvort heldur er varðar vatnafiska eða sjávarfiska. Þess er auðvitað skammt að bíða að við förum að rækta sjávarfiska ekki síður en vatnafiska.

Ég vil þess vegna gjarnan taka undir þá skoðun hv. þm. að frv. taki til fiskiræktarstöðva alveg nákvæmlega eins og fiskeldisstöðva. Þessi orð eru nú nokkuð á reiki. Þau tákna nokkuð misjafnt í munni hinna ýmsu aðila sem um þetta fjalla. Einnig tel ég alveg eðlilegt að hrogn gætu fallið undir þessi væntanlegu lög.

En eins og hæstv. viðskrh. gat um þegar hann mælti fyrir frv. þessu er það auðvitað á valdi þeirra lánastofnana sem framkvæma þessi lög, veita lán eða tryggingar, hve langt þær stofnanir vilja ganga. Þær reglur hljóta að mótast á næstu mánuðum og misserum og verður vafalítið eitthvert samræmi á milli reglna lánastofnananna, en naumast ástæða til að binda það allt saman í lögum þegar þau eru nægilega rúm.