12.03.1986
Efri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

332. mál, áfengislög

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Hv. 1. flm. þessa frv. byrjaði sína tölu á því að taka fram að að sínu áliti bitu engin ný rök í þessu máli á þm. Eigi að síður er í frv. sem hér er flutt augljóslega lögð til önnur málsmeðferð en niðurstaða varð um í Ed. á liðnum vetri.

Til upprifjunar og ekki síst til upplýsingar þeim sem hér sitja nýir skal þess getið að Ed. samþykkti þá málsmeðferð að ríkisstj. skyldi á árinu 1985 láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal allra kosningabærra manna um hvort leyfa skuli innflutning og framleiðslu á áfengu öli sem hefði inni að halda vínanda á styrkleikabilinu 4-5% að rúmmáli. Það var gert ráð fyrir því að atkvæðagreiðslan yrði ráðgefandi fyrir Alþingi og ríkisstj. og málið yrði lagt fyrir á grundvelli frv. sjálfs sem var flutt í fyrra. Að vísu var því mjög mikið breytt í meðförum Nd.

Tillögur Ed. gerðu sem sagt ráð fyrir því að málið kæmi aftur fyrir þingið. Á þessu tvennu er býsna mikill munur. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er á þá lund að vísa málinu alfarið héðan að þessu frv. samþykktu og skjóta því þannig undir dóm þjóðarinnar. Þingið fær það ekki til meðferðar á nýjan leik nema ef atkvæðagreiðsla meðal þjóðarinnar færi á þá lund að þetta yrði fellt. Þá kynni það að koma einhvern tíma til þingsins. Á þessu tvennu tel ég mikinn mun og ekki síst með vísan til þess að í raun og sannleika er það auðvitað þannig að þm. tjáðu sig ekki á liðnum vetri um hvaða afstöðu þeir tækju með tilliti til annars vegar einfalds meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi samþykki þessara tillagna eða hins vegar aukins meiri hluta. Í því efni getur afstaða manna hugsanlega ráðist að einhverju leyti varðandi þetta mál. Ég er ekki að fullyrða neitt í því efni, en maður hlýtur að leiða að því hugann.

Umræður um þessi mál, hvort leyfa skuli sölu og framleiðslu á áfengu öli, hafa legið niðri um alllangt skeið. Ég hef þá skoðun að þjóðin líti svo á að niðurstaðan á liðnu þingi, ef niðurstöðu skal kalla, hafi borið það í sér að málið mundi kyrrt liggja það sem eftir er af þessu kjörtímabili.

En erindi mitt hingað í ræðustólinn var fyrst og fremst að draga fram í dagsljósið að til að veita þessu frv. brautargengi þarf að mínu viti á vissan hátt ný rök, einfaldlega vegna þess að málatilbúnaðurinn er ekki sá sami þegar um er að ræða frv. sem hér liggur fyrir samanborið við málsmeðferð Ed. eins og meiri hl. Ed. lagði til á síðasta þingi.