12.03.1986
Neðri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég gerði fyrr grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Hún er í stuttu máli sú að ég tel að hér sé ekki verið að taka á því sem er brýnast og í raun kannske því eina sem er brýnt í sambandi við þennan málaflokk, þ.e. hugmyndir um nýtt stjórnsýslustig, þriðja stjórnsýslustigið, fylki eða hvað sem menn vildu kalla það. Skýringarnar sem við höfum fengið á því að menn leiða þetta alveg hjá garði eru þær að ekki sé hægt að fara út í það núna, þetta sé svo stórt mál, það þurfi að taka það alveg sérstaklega upp. En þetta eru skýringar sem við getum alls ekki sætt okkur við þó að það séu næstum orðnar daglegar viðbárur í þinginu að menn kvarti yfir því að mál séu svo yfirgripsmikil að það sé ekki hægt að tala um þau.

Svo að ég rifji upp nokkur dæmi hafa menn í sambandi við húsnæðismál, í sambandi við kjaramál, í sambandi við t.d. hugmyndir um mjög róttækar breytingar á bankamálum iðulega sagt að ekki sé hægt að fara út í það núna af því að þetta sé svo brátt og það þurfi að gera eitthvað strax. Núna heyrum við það í sambandi við mjög róttækar hugmyndir um breytingar á stjórnskipun að það sé svo stórt mál að ekki sé hægt að tala um það.

Mér finnst vera mikið umhugsunarefni að þingið skuli æ ofan í æ augljóslega vera svo vanbúið til að takast á við stórmál og taka stórar ákvarðanir. Ég held að menn ættu að velta fyrir sér hvort þeir séu að bregðast einhverjum, séu kannske að bregðast sjálfum sér og e.t.v. kjósendum. T.d. í þessu tiltekna máli, þ.e. umfjöllun um breytingar á stjórnskipaninni hvað varðar þriðja stjórnsýslustigið, er það ekkert sérviskumál örfárra þm. að um það sé fjallað. Þetta er brennandi stórmál í íslenskri pólitík. Þetta er það mál sem brennur heitast á fólki alls staðar utan hitaveitusvæðisins í kringum Reykjavík. Þetta er það sem fólk talar mest um og það sem fólk væntir að sé talað um í stjórnmálum hérna líka. Þá láta menn sér nægja að taka smáa letrið og samþykkja það. Það er alls ekki nógu gott. Það er að koma sér hjá því að tala um aðalatriðin.

Menn geta spurt hvers vegna þetta sé. Menn geta spurt hvort það sé vegna kjarkleysis, að menn treysti sér ekki til að taka fyrir róttækar hugmyndir um breytingar á stjórnskipan, eða hvort það sé getuleysi, að menn einhverra hluta vegna geti ekki fengist við svona stór og flókin mál, eða hvort það sé einfaldlega viljaleysi. Þeir sem eru harðir í dómum um þessi efni segja: Þetta er bara viljaleysi. Þm. vilja ekki taka fyrir þessar stórvirku breytingarhugmyndir vegna þess að breytingarnar sem farið er fram á svipta þm. völdum. Þær minnka völd alþm. Alþm. munu ókvaldir ekki fjalla um mál sem minnka þeirra eigin völd. - Það er nefnilega svo að hugmyndirnar um þriðja stjórnsýslustigið, um fylkið, sem menn vilja ekki ræða hér, hafa t.d. mótast í umræðum úti um allt land. Þær ganga mjög verulega út á það að taka vald frá Alþingi og stofnunum þess og færa til fólksins sjálfs. Þeir sem kveða fast að segja að það sé einfaldlega vegna þess að menn vilji ekki minnka völd sín á þennan hátt að þetta er ekki rætt hér. Það er alvarlegt mál ef satt er.

Staðreyndin er sú að fólk um allt land krefst þessara breytinga og fólkið í byggðunum, sem svíður valdaleysið, og þar sem það brennur á fólkinu að geta ekki haft sjálfsbjörg, horfir hingað til Alþingis og væntir stórra breytinga. Ég hygg að það sé vel þess virði að leggja þunga meiningu í samtök eins og samtökin Jafnrétti milli landshluta sem hafa þúsundir manna á skrá, hafa haldið stóra og vel sótta fundi í öllum landshlutum, standa fyrir blaðaútgáfu í tugþúsundum eintaka og starfsemi sem er að verða verulega umfangsmikil. Þar býr eitthvað að baki. Það er ekki samviskumál eins manns eða tveggja. Það er stór hreyfing meðal fólksins. Alþingi vanvirðir þetta fólk ef það ekki hlustar. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Já, ég á þó nokkuð eftir, herra forseti. (Forseti: Það er nú komið þegar nokkuð fram yfir venjulegan fundartíma og þingflokksfundir hafa verið boðaðir. Forseti sér sér ekki fært að halda þessum fundi lengur áfram. Á næsta fundi heldur hv. 4. landsk. þm. áfram ræðu sinni ef honum er það ekki óljúft að fundi verði lokið í dag.)

Umr. frestað.