13.03.1986
Sameinað þing: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

284. mál, endurskoðun skattalaga

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 520 hef ég leyft mér að flytja þáltill. um endurskoðun skattalaga. Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er að minna á hve skattkerfi landsmanna er hörmulega götótt og ósanngjarnt gagnvart skattgreiðendum og benda á leiðir til úrbóta. Mesta ósanngirnin í núverandi skattkerfi er í því fólgin að atvinnureksturinn í landinu ber sáralítinn hlut af sameiginlegum útgjöldum landsmanna og byrðin lendir því af þeim mun meiri þunga á launafólki.

Ég vil nefna í upphafi míns máls þrjú dæmi.

Þegar ég var að undirbúa flutning þessarar till. leitaði ég upplýsinga hjá ríkisskattstjóra um fjölda tekjuskattslausra fyrirtækja við álagningu skatta á s.l. ári. Fyrirtæki í félagsformi, sem eru yfir einhverri ákveðinni lágmarksstærð, hafa t.d. í þessu tilviki að jafnaði a.m.k. hálfa millj. kr. í árlega veltu, eru 3890 talsins. Heildarvelta þessara 3890 fyrirtækja á árinu 1984 mun hafa numið 136 milljörðum kr., en álagður heildartekjuskattur þessara fyrirtækja reyndist aðeins um 700 millj., 0,7 milljarðar, og skv. upplýsingum í fjárlagafrv., sem lagt var fram núna í haust, er innheimtan aðeins áætluð 425 millj. kr. eða 0,3% af heildarveltu þessara fyrirtækja. Tekjuskattur einstaklinga, þ.e. innheimtur skattur, er hins vegar áætlaður um 2035 millj. og er það um það bil fimm sinnum hærri fjárhæð.

Til að gera langt mál stutt er það niðurstaðan af þessari úttekt að af þessum 3890 fyrirtækjum greiddu 1968 fyrirtæki engan skatt, þ.e. þau höfðu neikvæðan tekjuskattsstofn eins og fram kemur í fskj. IV sem birt er með þessari till., og er þá þeim fyrirtækjum sleppt sem eru í tveimur fyrstu línum töflunnar vegna þess að þau voru talin svo smávaxin að ekki gæfi rétta mynd að telja þau með.

Það er niðurstaðan af þessari úttekt, sem var sérstaklega gerð í tengslum við flutning þessarar till., að meiri hluti fyrirtækja í landinu, um 51% af fyrirtækjum í félagsformi, greiðir engan tekjuskatt. Þó er ljóst af skýrslum Þjóðhagsstofnunar að afkoma fyrirtækja á árinu 1984 var almennt talin nokkuð góð ef útgerð er undanskilin.

Annað dæmið um þetta makalausa skattakerfi núv. ríkisstj. fengu menn þegar hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. iðnrh., seldi hlutabréf ríkisins í Flugleiðum á s.l. hausti. Bréfin fóru vissulega fyrir væna fúlgu, enda mikilvæg eign sem ríkið var þarna að selja og hafði greitt fullu verði á sínum tíma, en þegar betur var að gáð kom í ljós að það sem ríkissjóður fær raunverulega í sinn hlut af sölu bréfanna reynist vera minna en ekki neitt fyrstu árin, einfaldlega vegna þess að skattafrádrátturinn hjá kaupendum verður hærri en nemur greiðslunum fyrir bréfin.

Þriðja dæmið er svo frá því í haust þegar húsnæðismálastjórn gerði úttekt á framtöldum tekjum húsbyggjenda og kaupenda. Þá kom í ljós að sjálfstæðir atvinnurekendur reyndust hafa miklu lægri tekjur en einstæðar mæður sem sjálfsagt eru margar í þjónustu þeirra.

Hver er svo aðalástæðan fyrir þessu himinhrópandi ranglæti í núgildandi skattkerfi? Vissulega verður að játa að skattkerfi landsmanna hefur löngum verið gallað og sérstaklega hafa sjálfstæðir atvinnurekendur löngum sloppið vel frá því að gjalda tekjuskatt í eðlilegu samhengi við umsvif sín. Úr þessu var þó töluvert reynt að bæta í tíð seinustu ríkisstjórnar.

Til skýringar á þessum ummælum mínum er birt í fskj. I yfirlit yfir helstu breytingar á skattalögum í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens 1980-1983. Þar er ekki farið alveg í smáatriðum ofan í þær breytingar sem gerðar voru. En ég leyfi mér að fullyrða að atvinnureksturinn í landinu hafi skilað töluvert hærri upphæð hlutfallslega í sameiginlegan sjóð landsmanna þá en hann gerir nú. Stafar það ekki hvað síst af öðrum reglum um afskriftir og svo hinum ýmsu ívilnunarreglum sem síðar eru til komnar. Afskriftareglur voru þá verulega hertar frá því sem hafði verið eftir að skattalögin voru samþykkt hér á Alþingi vorið 1978. Þó verður að viðurkennast að í þeim lögum fólust ýmsar mikilsverðar breytingar til bóta, m.a. sú breyting að atvinnurekstur og tekjur eða tap af atvinnurekstri blandast ekki lengur saman við launatekjur einstaklinga.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um þær breytingar sem gerðar voru á skattalögum í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þær voru fjölmargar, eins og hér má sjá á bls. 3 í þessu þskj. og reyndar einnig á bls. 4 þar sem gerð er grein fyrir stórmikilvægum breytingum á söluskattslögum sem þá voru gerðar og ég hygg að hafi skilað í ríkissjóð verulegum fjármunum eftir að þau ákvæði komu til framkvæmda.

En í þessu samhengi er kannske öllu forvitnilegra að sjá yfirlit sem ég hef samið yfir helstu breytingar á skattalögum í tíð núv. ríkisstj. á árunum 1983-1985. Það er á bls. 5 í þessu þskj. Þar eru vissulega ýmsar úrbætur til hins betra, þar á meðal nokkur lækkun á tekjuskatti launamanna. Þar er hins vegar að miklum meiri hluta til að finna ákvæði sem draga úr skattgreiðslum atvinnurekenda.

Þar vil ég sérstaklega benda á 3. tölul. á bls. 5 þar sem minnt er á að skattur af verslunar- og skrifstofuhúsnæði var lækkaður í des. 1983 úr 1,4% í 1,1%.

Í öðru lagi er í 4. tölul. bent á að á árinu 1984 var tekjuskattur lögaðila, þ.e. hlutafélaga og annarra fyrirtækja í félagsformi, lækkaður mjög verulega eða úr 65% í 51%. Áður var álagningarprósenta gjarnan miðuð við það hjá félögum að hún væri jafnhá samanlagðri jaðarprósentu tekjuskatta einstaklinga. Á þeim tíma var tekjuskattur 50%, útsvarið 13%, sjúkratryggingagjald 2%. Samanlagt gerði þetta 65%. En þarna var sú breyting gerð að tekjuskattur félaga var lækkaður alveg niður í 51% . Þá erum við bersýnilega komin langt niður fyrir það sem er jaðarskattur hjá einstaklingum vegna þess að skattþrepin eru nú 44%, 10-11% og 2% í sjúkratryggingagjaldið eða samtals um 55- 56%. En tekjuskattur lögaðila er sem sagt kominn niður í 51% og er kominn langt niður fyrir það sem hann hefur nokkru sinni áður verið.

Þriðja meiri háttar breytingin, sem ég vek athygli á að gerð hefur verið, er tekjuskattslagabreytingin nr. 8 og 9 frá 1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Þá voru fyrirtækjum og einstaklingum, sem fjárfesta í atvinnurekstri eða kaupa hlutabréf í fyrirtækjum, veittar mjög stórfelldar og margháttaðar skattaívilnanir.

Í fjórða lagi má svo nefna að stórlega var dregið úr skattskyldu innlánsstofnana á árinu 1984. Má ætla að skattgreiðslur banka til ríkissjóðs hafi lækkað um hvorki meira né minna en 360 millj. kr. á árunum 19841986 reiknað á verðlagi 1984. Það mætti sem sagt hækka þessa tölu allverulega ef ætti að flytja hana yfir á verðlag 1986. En 360 millj. var gjöfin sem bönkunum var gefin á árinu 1984 fyrir þessi þrjú ár.

Í fimmta lagi má nefna endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til útgerðar sem kannske er betur réttlætanleg en flest annað af því sem ég hef nú nefnt vegna þess hversu illa hefur staðið í bólið hjá útgerðinni. Áætlað tekjutap ríkissjóðs á árinu 1985 vegna þessa er um 400 millj. kr. Staðreyndin er sú að þetta stóra útspil úr ríkissjóði átti sér stað á s.l. ári án þess að nokkur minnsta tilraun væri gerð til að afla þar tekna á móti. Þetta er ein af mörgum ástæðum fyrir því hversu báglega horfir nú í ríkisfjármálum eins og allir þekkja. Tekjupóstum hefur verið spilað út í mjög stórum stíl, þar á meðal þessum, án þess að nokkurra annarra tekna hafi verið aflað á móti.

Staðreyndin er sú að núv. ríkisstj. hefur með þessari margvíslegu lagasetningu á undanförnum þremur árum sett svo margar glufur og smugur á gildandi skattalög með öllum þessum frádráttarheimildum að hin óhjákvæmilega afleiðing hefur orðið sú sem ég hef nú rakið. Meiri hluti fyrirtækja í landinu greiðir engan tekjuskatt og hinn hlutinn, sem eitthvað greiðir, skilar svo litlu í ríkissjóð að heildarframlagið nemur aðeins 0,3% af veltu fyrirtækja.

Það er ljóst að gildandi skattareglur eru bæði hóflausar og siðlausar gagnvart öðrum skattgreiðendum sem ekki eru í atvinnurekstri. Þess vegna er þessi till. flutt. Aðalefni hennar er að Alþingi álykti um nauðsyn þess að mörkuð sé ný stefna í skattamálum og skattalög séu endurskoðuð með það fyrir augum að skattbyrðin á tekjum og útgjöldum fólks með lágar tekjur eða meðaltekjur léttist en atvinnureksturinn í landinu greiði skatt af tekjum sínum og veltu undanbragðalaust og taki þannig hæfilegan þátt í sameiginlegum útgjöldum landsmanna.

Fyrstu sex liðir þessarar tillögu beinast sérstaklega að skattgreiðslum fyrirtækja. Í fyrsta lagi er lagt til að tekjuskattur lögaðila verði hækkaður og þá með þeim rökum, sem ég nú hef rakið, að hann er töluvert miklu lægri og jaðarskattprósentan hjá einstaklingum miklu hærri en hjá lögaðilum. Það er ekki nein sanngirni og hlýtur að þrýsta mönnum mjög til þess að breyta rekstri frá því að vera rekstur rekinn á nafn og yfir í að að vera rekstur rekinn í félagsformi. Enda er enginn vafi á því að menn hafa í stórum stíl hrakist inn á þessa braut til að spara sér útgjöld. Ég veit æðimörg dæmi þess að t.d. iðnaðarmenn, sem fram undir þetta höfðu bara verið launamenn, hafa valið þann kostinn að stofna einhvers konar verktakastarfsemi í kringum sína starfskrafta og selja vinnu sína á þann veg vegna þess að með því virðast skattgreiðslur þeirra verða léttbærari en ella eftir þessar breytingar sem gerðar hafa verið.

Eins og ég hef nefnt fjalla sex fyrstu liðir till. um atvinnureksturinn. Lagt er til að stóra ívilnunarreglan frá 1984 verði afnumin, að framlög í varasjóð verði skattlögð eins og aðrar tekjur og að afskriftatími verði lengri en nú er og í meira samræmi við endingartíma eigna. Um það mætti sannarlega flytja langt mál en verður ekki gert hér tímans vegna.

Í öðru lagi teljum við Alþýðubandalagsmenn að arð af hlutabréfum eigi að skattleggja eins og aðrar tekjur og eftirlit með bókhaldi og framtölum fyrirtækja verði að herða mjög verulega, einkum hjá einstaklingum með sjálfstæðan rekstur, hækka sektir við skattsvikum og hraða meðferð skattsvikamála.

Þá leggjum við áherslu á að skattar á miklar eignir verði hækkaðir og að vaxtatekjur umfram verðtryggingu verði almennt skattlagðar ofan við ákveðin mörk. Um þetta höfum við flutt tillögur áður.

Að öðru leyti leggjum við áherslu á að ekki verði settur á virðisaukaskattur eða að matvörur og aðrar brýnustu lífsnauðsynjar verði skattlagðar með öðrum hætti, t.d. með því að leggja á þær söluskatt eins og mikið hefur verið rætt um. Við leggjum til að útsvar verði stigbreytilegt í samræmi við tekjur og að tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta svo fljótt sem verða má.

Virðulegi forseti. Tímans vegna læt ég þessu lokið. Um þessa till. er það eitt að segja að á það er lögð áhersla að mörkuð sé ný stefna í skattamálum. Þá er fyrsta skrefið að Alþingi lýsi vilja sínum í þá átt hvernig sú breyting eigi að verða.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. fjvn.