13.03.1986
Sameinað þing: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

307. mál, fríverslunarsamningur við Bandaríkin

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar meta skal þá tillögu að ríkisstj. láti fram fara könnun á gerð sérstaks fríverslunarsamnings við Bandaríkin verður að hafa í huga reynslu Íslands af aðild að fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, fríverslunarsamningum við Efnahagsbandalag Evrópu og tollalækkun fyrir íslenskar vörur í öðrum löndum á grundvelli viðskiptaviðræðna á vegum GATT, m.a. tollalækkunum á íslenskum útflutningsvörum í Bandaríkjunum á síðustu árum í kjölfar Tokyo-viðræðnanna sem fram fóru á árunum 1973-1979.

Vísað hefur verið til þess að Bandaríkin hafi gert samninga við nokkur ríki á Karabíska hafsvæðinu á árinu 1983, undirritað samning við Ísrael á árinu 1985 og átt könnunarviðræður við Kanada á þessu ári. Rétt er að fara örfáum orðum um þessa samninga og samningaviðræður.

Að því er varðar fríverslunarsamninga við ríki á Karabíska hafsvæðinu verður að hafa í huga að um þróunarlönd er að ræða og voru tollar felldir niður af ýmsum vörutegundum sem ekki féllu undir hið almenna tollaívilnanakerfi í þágu þróunarlandanna sem ýmis iðnríki eru aðilar að, þar á meðal Bandaríkin. Mun í stórum dráttum vera um að ræða einhliða ívilnanir af hálfu Bandaríkjanna um nokkurra ára skeið á mörgum vörum. Samningarnir eru liður í viðreisn efnahagslífs þróunarlandanna á þessu svæði. Útilokað er að iðnríkjum á Vesturlöndum stæðu slík kjör til boða nema gegn samsvarandi lækkun tolla á móti.

Viðskipti Bandaríkjanna við Ísrael eru að sjálfsögðu margfalt meiri en viðskiptin við Ísland. Fríverslunarsamningur Bandaríkjanna og Ísraels, sem undirritaður var 22. apríl á s.l. ári, er um margt áþekkur þeim fríverslunarsamningum sem Ísland þekkir af eigin raun að því er varðar afnám verndartolla. Byggist hann á afnámi tolla og annarra innflutningshafta á því sem næst öllum viðskiptum landanna, en nær þó ekki fyrst og fremst til iðnaðarvara að formi til. Heimilt er að halda magntakmörkunum á landbúnaðarvörum svo og innflutningsgjöldum en ekki tollum. Sumir tollar eru afnumdir strax, en aðrir í áföngum á ákveðnu árabili eða allt til ársins 1995. Þá eru þar ákveðnar sérreglur, m.a. varðandi óhagstæðan greiðslujöfnuð og óhindraðan aðgang að opinberum útboðum, en síðastnefnda ákvæðið gengur lengra en reglur GATT. Þá er stefnt að því að létta af hömlum á þjónustuviðskiptum, en það er sérstakt áhugamál Bandaríkjamanna.

Svo sem ég mun víkja að síðar hafa Kanadamenn og Bandaríkjamenn átt með sér óformlegar bráðabirgðaviðræður um gerð fríverslunarsamnings. Ekki er rétt að um könnunarviðræður landanna um málið hafi verið að ræða í febrúar s.l. heldur fóru þá fram reglulegar viðræður um viðskiptamál landanna og snertu þær ekki nema að hluta fyrirhugaðar viðræður um fríverslunarsamning. Samkvæmt nýjustu upplýsingum mun nú standa á Kanadastjórn til þess að unnt sé að hefja könnunarviðræður í bráð.

Athugun á útflutningi okkar til Bandaríkjanna sýnir að helstu útflutningsvörur okkar eru að mestu tollfrjálsar í Bandaríkjunum. Þannig er enginn tollur á frystri fiskblokk, frystri rækju, frystum humri, frystum hörpudiski, þorskalýsi og niðursoðinni reyktri síld. Heilfrystur og ísaður fiskur er tollfrjáls nema karfi, 0,5 senta tollur er lagður á pundið. Tollur á frystum flökum er 1,875 sent á pund fyrir fyrstu 15 millj. pundin og mun sá tollur gilda um allt innflutningsmagnið frá og með árinu 1987. Þessi magntollur svarar því til 1,25% verðtolls. Hins vegar eru tollar á ullarvörum 15-20% ásamt magngjaldi, 2-31 sent á pundið. Tollur á ullarlopa og ullarbandi er sem næst 9%. Ekki verður séð að tollar séu sérstakur þrándur í götu aukinna viðskipta við Bandaríkin. Einna helst er bent á að allháir tollar séu á ullarvörum í Bandaríkjunum, en útflutningur íslenskra ullarvara til Bandaríkjanna hefur verið hverfandi lítill í samanburði við heildarútflutninginn eða innan við 5% að undanförnu. Þá hefur verið bent á að allháir tollar séu á unnum fiskafurðum. Af þeim sökum hefur hins vegar verið byggt upp mjög öflugt fiskvinnslu- og fisksölukerfi á vegum Sölusambands hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga eins og öllum hér er kunnugt.

Af hálfu viðskrn. hefur verið fylgst með þróun undanfarinna ára varðandi gerð fríverslunarsamninga Bandaríkjanna við önnur lönd. Þetta var rætt við fulltrúa Bandaríkjanna þegar á árinu 1982 og var svarið þá að ekki væri unnt að semja við Ísland um tollalækkanir nema á grundvelli GATT-samningsins, þ.e. að tollalækkanir giltu um innflutning frá öllum löndum. Nú eru og í undirbúningi nýjar viðskiptaviðræður á vegum GATT og er þess vænst að þær geti hafist formlega seint á þessu ári. Hafa Bandaríkjamenn lagt mjög mikla áherslu á að þessar viðræður hæfust sem allra fyrst. Í viðræðum þessum yrði m.a. stefnt að því að lækka tolla milli ríkja. Mun Ísland, eins og í Tokyoviðræðunum, fara fram á lækkanir á tollum í Bandaríkjunum og öðrum ríkjum og þau ríki koma með gagnóskir gagnvart Íslandi. GATT-viðræður taka að vísu langan tíma, en Bandaríkjamenn hafa bent á að viðræður um gerð sérstakra fríverslunarsamninga við Bandaríkin taki einnig mörg ár. Þetta kom m.a. fram í svari bandaríska sendiherrans hér á landi í byrjun febrúar s.l. til forsrh. Í því sambandi var bent á að óformlegar viðræður hefðu átt sér stað í nokkur ár áður en Kanadamenn lýstu yfir áhuga sínum á að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin. Samningaviðræður geta síðan tekið nokkur ár í viðbót. Þá er ljóst að þrjú ár liðu frá því að Ísraelsmenn komu á framfæri ósk sinni um slíkan samning þar til viðræður hófust.

Hér má nefna að ósennilegt er að slíkur fríverslunarsamningur, ef gerður væri, mundi ná til fleiri íslenskra sjávarafurða en stofnsamningur EFTA og fríverslunarsamningurinn við EBE. Er því ólíklegt að tollar á íslenskum útflutningsvörum mundu lækka um þá upphæð sem greind er í þáltill. Þá yrði sú tala, sem þar er gefin upp varðandi lækkun tolla, langt frá því að vera raunhæf. Þannig er uppgefin tollalækkun á Íslandi til hagsbóta fyrir Bandaríkjamenn á árinu 1984 323 millj. kr.

Í þáltill. er meðal annarra orða gert ráð fyrir lækkun tolla á öllum vörum, bæði verndartolla og fjáröflunartolla. Aðeins er þó raunhæft að gera ráð fyrir því að tollar mundu lækka á þeim iðnaðarvörum sem eru framleiddar hér á landi, meðal annarra orða aðeins verndartollar. Fjáröflunartollar, t.d. af bifreiðum, mundu haldast eins og er gagnvart EBE- og EFTA- löndum. Yrði því tollalækkunin sem Bandaríkjamenn mundu njóta um 16 sinnum minni en gefið er upp fyrir árið 1984 eða 20 millj. kr. og hagræðið fyrir þá því miklu minna en ella.

Í þeirri úttekt sem landsnefnd Alþjóðaverslunarráðsins, sem flm. þessarar till. vitnaði til, lét gera segir að árið 1984 hafi innflutningsverðmæti vöru sem flutt var inn frá Bandaríkjunum til Íslands það ár verið 1806 millj. kr. Sama ár var útflutningsverðmæti vöru sem flutt var frá Íslandi til Bandaríkjanna 6686 millj. kr. Af innfluttum vörum til Bandaríkjanna voru 323 millj. greiddar í tolla eða 18% af heildarverðmæti. Innflutningsverðmæti þeirrar vöru sem flutt var inn til Íslands frá Bandaríkjunum en hefði verið tollfrjáls ef hún hefði komið frá aðildarlöndum EFTA eða EBE nam rúmlega 142 millj. kr. Af þessum vörum voru 20 millj. kr. greiddar í tolla. Á sama tíma námu tollar í Bandaríkjunum um 4 millj. bandaríkjadala eða því sem næst 129 millj. ísl. kr. sem eru aðeins 2% af útflutningsverðmæti vöru héðan. Stærsti hluti útflutnings okkar til Bandaríkjanna eru sjávarafurðir. Tollar á sjávarafurðir í Bandaríkjunum eru lágir í samanburði við tolla sem lagðir eru á hvers konar iðnaðarvörur.

Megininntakið í svarinu sem sendiherra Bandaríkjanna gaf forsrh. varðandi afstöðu Bandaríkjastjórnar til hugmyndarinnar um fríverslunarsamninga er það að á næstu árum mun starfsgeta bandarískra ríkisstarfsmanna, er vinna að mótun viðskiptastefnu, beinast mjög að hinum nýju marghliða viðskiptaviðræðum á vettvangi GATT. Viðræður um fríverslunarsamninga við einstök lönd hafa ekki forgang og sé aðeins unnt að leggja takamarkaða orku í þær. Takmörkuð starfsgeta kunni því að verða til þess að slíkar viðræður, sem ganga hægt fyrir sig, gangi enn hægar en áður. Er reyndar einnig minnt á það meðal ýmissa skilyrða að slíkur samningur þyrfti að hafa í för með sér möguleika á miklu hagræði fyrir Bandaríkin sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Það má enginn þm. skilja þessi orð mín á þann veg að ég amist við könnun á gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin, en m.a. með hliðsjón af því sem ég hef áður sagt virðist að svo stöddu eðlilegt að viðskrn. og ríkisstj. fylgist áfram, fyrst óformlega, með þróun mála varðandi möguleika á aukinni fríverslun við Bandaríkin, bæði á marghliða grundvelli á vettvangi GATT og tvíhliða grundvelli gagnvart Bandaríkjunum.

Þetta er það sem ég vil helst um þessi mál segja og vil jafnframt lýsa því yfir að hér eftir sem hingað til verður mjög grannt fylgst með framvindu þessara mála.