13.03.1986
Sameinað þing: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

319. mál, dómshús fyrir Hæstarétt Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að fá tækifæri til þess einu sinni enn að lýsa yfir fyllsta stuðningi við efni þeirrar till. sem hv. 2. þm. Vesturl. hefur hér talað fyrir.

Ég hreyfði þessu máli nokkrum sinnum í tíð fyrri ríkisstj. Þá var að vísu lengra til lands í byggingarmálum Þjóðarbókhlöðunnar. Það var sýnilegt að mörg ár mundu líða þar til söfnin gætu flutt úr húsinu við Hverfisgötu. Ég hef oft síðar lýst yfir því að ég er fylgjandi þeirri stefnu sem hér er mörkuð. Nú sér til lands í þessum efnum. Það liggur fyrir að Þjóðskjalasafn og Landsbókasafn munu flytjast innan skamms í nýtt húsnæði.

Það er hafið yfir allan efa hve nauðsynlegt er að Hæstiréttur Íslands fái aukinn og bættan aðbúnað. Hér á landi eru aðeins tvö dómstig og þeir eru margir sem vilja fá úrskurð eða dóm Hæstaréttar í sínum málum. En því miður hefur þessi æðsti dómstólI allt of lengi búið við ófullnægjandi húsnæði. Á honum hvílir gífurlegt vinnuálag, en sem betur fer hefur nokkuð ræst úr því á seinni árum. Ég held að það sé nú yfirleitt talið að störf Hæstaréttar hafi gengið mun greiðara eftir að dómurum var fjölgað og starfslið aukið.

Eins og hv. flm. rakti hygg ég að dómarar, lögmenn og lögfræðingar séu yfirleitt sammála um að þetta virðulega hús, Safnahúsið við Hverfisgötu, eigi að endurbæta og nýta sem dómhús Hæstaréttar Íslands til frambúðar.

Ég ætla ekki fara um þetta fleiri orðum, aðeins láta þessa skoðun mína koma skýrt í ljós og stuðning minn við þetta mál og enda á því, sem er raunar sagt í niðurlagi grg., að Safnahúsið við Hverfisgötu er glæsilegt og virðulegt hús og fer vel á því að það verði aðsetur æðsta dómstóls þjóðarinnar í framtíðinni.

Umr. (atkvgr.) frestað.

1