17.03.1986
Efri deild: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

274. mál, verk- og kaupsamningar

Flm. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Á þskj. 509 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um verðbreytingar í verk- og kaupsamningum.

Nú er það þannig að hér á landi hafa tíðkast ýmis vinnubrögð í verk- og kaupsamningum hvað verðbreytingar áhrærir og hefur þar verið nokkuð misjafn gangur á. Þessum lögum er í fyrsta lagi ætlað tvennt: Það er annars vegar að koma á einni tegund vinnubragða í verðbreytingum í verksamningum og svo hins vegar að koma þeirri tegund vinnubragða á sem jafnar á eins réttlátan hátt og hægt er að gera þegar um þessa hluti er að ræða þeirri áhættu eða hagnaðarvon, sem í kaupsamningum með verðbreytingum felast, á báða samningsaðila, a.m.k., og það er í raun og veru lágmarkskrafa, að koma í veg fyrir að uppfærðar verðbætur, þ.e. greiddar verðbætur og innborganir á verk- og kaupsamninga, geti ekki orðið hærri upphæð en uppfærð samningsupphæð til sama tíma.

1. gr. þessa frv. segir aðeins að heimilt sé að breyta umsömdu verði í þjónustu-, verk- eða kaupsamningum ef breytingar verða á kostnaði vegna efnis eða launa sem til þarf á framkvæmdatíma samnings eða hluta hans.

Hingað til hafa ekki verið nein lög á Íslandi sem taka af né heimila þessa hluti. Þess hefur ekki þótt þörf þar sem þetta var álitinn mjög eðlilegur hluti af frjálsum samningum. Nú er það aftur á móti svo að eftir að Íslendingar fóru að lifa við mjög varanlega verðbólgu og voru búnir að gera um margra ára eða áratuga skeið voru settar ákveðnar reglur í krafti þeirra laga sem samþykkt voru í júní 1979 og almennt ganga undir nafninu Ólafslög. Þessar reglur voru settar í tengslum við þessi lög af Seðlabankanum og giltu um framkvæmd verðbreytinga í lánastarfsemi banka.

Sumir vildu skilja lögin þannig að það ætti líka að vera hlutverk Seðlabankans að setja reglur um notkun verðbreytinga í verk- og kaupsamningum. Seðlabankinn aftur á móti skildi lögin þannig og tók þá afstöðu að það væri ekki hans hlutverk að setja reglur um notkun verðbreytinga í samningum aðila sín á milli sem ekki tengdust banka- eða útlánaviðskiptum.

Sú regla, sem notuð er t.d. við verðbreytingu á bankalánum eða í verðbreytingum á sparifjárinnistæðum, er í grundvallaratriðum þannig að leggi maður inn ákveðna upphæð og láti hana liggja á reikningi í langan tíma er sama hvort maður tekur þessa upphæð út einhvers staðar á því tímabili sem um ræðir eða geymir hana til loka tímabilsins sem um ræðir. Maður fær verðbætur nákvæmlega í hlutfalli við þá tímalengd sem innistæðan hefur staðið inni. Ef við erum að tala um lán borgar maður af láninu á einhverjum ákveðnum umsömdum afborgunartíma og þegar þeim afborgunartíma er lokið standa að jöfnu annars vegar greiddar afborganir og verðbætur og hins vegar hið upphaflega lán sem tekið var uppfært samkvæmt vísitölu til þess dags sem lokagreiðsla var innt af hendi.

Þegar maður horfir til þess að í verk- og kaupsamningum, sem gerðir hafa verið um fjölda verka, bæði óopinberra og opinberra, hefur verið notast við vísitöluútreikning og verðbótaútreikning, sem skilar annarri niðurstöðu en þessari, held ég að menn sjái nauðsyn þess að setja lög sem þessi. Þannig er mál með vexti að eftir því sem verðbólga á Íslandi gerðist æ trylltari töldu menn að þær reglur, sem notaðar voru til að breyta verði eða verðbæta, sem yfirleitt var nú um að ræða, umsamdar upphæðir í samningum, gæfu ekki réttláta niðurstöðu og menn reyndu sig í því að finna ýmsar leiðir til að ná því sem menn kölluðu réttlátustu niðurstöðu. Þá var það að menn duttu ofan á að nota það sem er kölluð línuleg vísitala.

Þannig er mál með vexti að vísitala er gefin út hér reglubundið, en hún er ekki gefin út daglega eða oft á dag. Hún er gefin út eins og er mánaðarlega, en áður fyrr voru vísitölur gjarnan ekki gefnar út tíðar en á þriggja mánaða fresti. Þá var það að menn fóru að tengja saman vísitölur eins tímabils, þá vísitölu sem var í upphafi og þá vísitölu sem var í lok tímabilsins, og bjuggu sér síðan til gervivísitölur einstakra daga á þessu þriggja mánaða tímabili og verðbættu samkvæmt þessari gervivísitölu. Þetta er að nokkru leyti hliðstætt við það ef menn væru að höndla t.d. með gjaldeyri þar sem gengi er gefið út daglega. Þegar einhver afhenti einhverjum gjaldeyri á miðnætti gerði hann það á gengi sem hann reiknaði sér út með því að taka meðaltal af genginu deginum áður og deginum eftir að sala fór fram.

Auðvitað geta menn í sjálfu sér samið um slíkt og þannig hafa menn líka litið á þetta. Það sé einfaldlega atriði sem afgreitt sé í frjálsum samningum, menn semji um jafngáfulegar eða vitlausar verðbætur og þeim hentar hverju sinni. En menn skyldu líka taka tillit til þess að þegar verið er að verðbreyta og þá í flestum

tilfellum verðbæta er verið að ákveða endanlegt verð á einhverri vöru, hvort sem það er framleiðsluvara eða fjárfestingarvara eins og bygging eða tæki í verksmiðjum. Því hærri sem verðbæturnar eru, sem greiddar eru, því hærra verður náttúrlega verð vörunnar. Það er út af fyrir sig allt í lagi ef verðbætur standa í beinu samhengi við þá verðmætasköpun sem orðið hefur, en ef ekki er lengur beint samhengi milli verðmætasköpunarinnar og verðbótanna, sem greiddar eru, eru menn farnir að greiða yfirverð og þá er verðmyndunin ekki lengur rétt. Þá er hún orðin röng.

Til þess að koma á einhvers konar alþjóðlegum vinnubrögðum í þessum málum kom svokölluð efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf sér niður á það í mars 1957 að gefa út ákveðinn viðauka við alþjóðlegar reglur um skilmála um sölu og uppsetningu á tækjum og vélbúnaði til inn- og útflutnings. Þessi viðauki fjallaði um hvernig skyldi gera upp verðbætur. Grundvallaratriði þessara reglna felst einfaldlega í því að verkkaupa sé ekki skylt að verðbæta útlagðar krónur í samningi eða þær krónur sem samið er um fyrr en verktaki hefur lagt þær út og eingöngu á þeim tíma sem verktaki leggur þær út þar til greiðsla er innt af hendi.

Þess vegna hljóðar 2. gr. þessa frv. þannig að til verðbreytinga skuli nota reiknireglu er viðskrn. gefur út á grundvelli viðauka við almenna skilmála um sölu og uppsetningu á tækja- og vélbúnaði til innflutnings og útflutnings nr. 188 A sem samin var á vegum efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu í Genf í mars 1957.

Reglur eins og hér er verið að tala um hafa verið gefnar út í nágrannalöndum okkar. T.d. hefur það ráðuneyti í Svíþjóð sem með þessi málefni fer gefið út reglugerð svipaðs eðlis og hér um ræðir. Það hefur gert það í samráði við samtök verktaka í Svíþjóð. Það hefur líka orðið að samkomulagi ráðuneytisins við verktakasambandið að ráðuneytið gefur út reglulega vísitölur á svipaðan hátt og Hagstofan gerir hér á Íslandi í dag, en þó öllu betur eða meira sundurliðaðar en hér gerist. Vel gæti maður hugsað sér að slíkt fyrirkomulag leiddi af samþykkt þessara laga.

Í 3. gr. segir: „Í þjónustu-, verk- eða kaupsamningum með breytanlegu verði skal taka greinilega fram hvaða verð eða vísitölu skuli nota við reikningsgerð vegna samnings eða hluta hans.“

Þetta er í sjálfu sér alltaf tekið fram í samningum. En þá vel að merkja að hingað til hefur ekki verið samið um þessa hluti samkvæmt heimildum eða stoð í lögum. Þegar menn fara að skipta sér af slíku af opinberri hálfu verður að tiltaka þá hluti sem ákveðnir verða að vera og fram verða að koma í samningum sem gerðir eru í samræmi við þessi lög.

Frú forseti. Með frv. þessu fylgir grg. þar sem lýst er því reikningsfyrirkomulagi sem hér er verið að mælast til að tekið verði upp í verk- og kaupsamningum. Ég hef átt nokkrar viðræður við aðila verktakamarkaðarins um þessi vinnubrögð og það skal sagt strax að ekki eru menn þar á eitt sáttir um þetta fyrirkomulag. Það er, að því er ég best fæ fundið, þó nokkur andstaða gagnvart þessari lagasetningu.

Þau rök sem fram koma í því máli af hálfu verktakanna eru ekki ýkja flókin. Þau eru einfaldlega að þeir segja: Við fáum með þessu móti minna fyrir okkar snúð. Og þeir segja einnig að verði lög svipuð þessu samþykkt muni tilboðsverð í útboðum hækka.

Án þess að ætla að fara að gera mönnum upp allt of stórar sakir tel ég að þessar tvær röksemdir, sem verktakar nota, mæli þó nokkuð sterklega með samþykkt þessa frv. Ef verktakar telja sig vera að missa spón úr aski sínum við samþykkt þessara laga virðist mér það benda til þess að ágóðahlutur þeirra af verksamningum hafi að einhverju leyti legið í verðbótunum, en það þýðir um leið að því hinu sama hefur verkkaupinn tapað. Hin röksemdin, þ.e. að við munum fá hærri tilboðsverð í útboðum verka með tilkomu þessara laga, gefur manni tilefni til að fullyrða að verð það sem sett hafi verið fram í tilboðum til verka hafi þá alls ekki byggst á raunsæju verðmætamati heldur hafi menn fyrst og fremst veðjað á þá verðbótareglu sem notuð hefur verið til að verðbreyta í verk- og kaupsamningum til þess að bæta sér upp verðlagningu sem hugsanlega var ekki nægilega nákvæm eða nægilega raunsæ. Þess vegna tel ég, jafnvel enn fremur en ella, nauðsyn á því að komið verði á einhvers konar reglulegum vinnubrögðum í þessum málum.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. þessarar deildar.