17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 16/1978, um varnir gegn kynsjúkdómum, sem er frá heilbr.- og trn. Nd.

Nefndin hefur fjallað um frv. á nokkrum fundum og kynnt sér rækilega ýmis gögn sem varða málið. Lágu frammi fyrir nefndinni margvísleg gögn um ráðstafanir gagnvart ónæmistæringu í ýmsum nágrannalöndum okkar, t.d. Svíþjóð og Bretlandi, sem nefndarmenn kynntu sér.

Eftir talsverða umfjöllun um málið varð nefndin sammála um afgreiðslu málsins og flytur brtt. á sérstöku þskj.

Nál. er undirritað af Pétri Sigurðssyni, formanni nefndarinnar, Guðmundi Bjarnasyni, Ólafi G. Einarssyni, Kjartani Jóhannssyni, Friðrik Sophussyni, Guðrúnu Helgadóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur.

Meginefni þessarar brtt. er það að komið er til móts við þær óskir samstarfsnefndar Borgarspítala og Landspítala og annarra, sem um þetta mál hafa fjallað, að skráningu kynsjúkdóma verði hagað á þann veg að fyllsta trúnaðar verði gætt varðandi persónu hins smitaða. Vil ég lesa brtt. þessa sem er á þskj. 585.

„Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:

4. gr. laganna orðast svo:

Skráningu kynsjúkdóma skal haga þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt varðandi persónu hins smitaða. Læknar skulu skrá sérstaklega alla einstaklinga með kynsjúkdóma og senda þær upplýsingar til landlæknis á þar til gerðu eyðublaði sem skrifstofa landlæknis gefur út. Þar skal einungis skrá fæðingarár, fæðingarmánuð og kyn hins smitaða. Læknir hins smitaða skal gæta fyllsta trúnaðar varðandi auðkenni viðkomandi einstaklings og gæta þess að öll slík auðkenni séu á vitorði hans eins. Gögn er varða auðkenni einstaklings skulu ekki fara úr vörslu læknis til vélritunar eða annarra nota.

Ef tveir skráðir einstaklingar hafa sama fæðingarár, fæðingarmánuð og kyn skulu læknar viðkomandi einstaklinga bera saman fæðingarnúmer þeirra til að koma í veg fyrir tvískráningu.

Sýni, send til rannsóknar frá þeim sem ástæða er til að ætla að hafi kynsjúkdómasmit, skulu merkt með upphafsstöfum þess læknis sem sýnið sendir og raðnúmeri sem hann gefur viðkomandi einstaklingi.

Landlæknir sér um faraldursfræðilega skráningu kynsjúkdóma.“