17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

302. mál, veð

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt þar sem ríkisstj. hefur borist áfangaskýrsla nefndar um fiskeldismál. Þar eru m.a. gerðar tillögur um tilhögun á rekstrar- og afurðalánum til fiskeldisfyrirtækja. Í skýrslu þeirrar nefndar kemur fram að ein helsta fyrirstaða þess að unnt sé að veita afurðalán til fiskeldisfyrirtækja sé skortur á veðum og skipti þar mestu máli að samkvæmt núgildandi veðlögum er álitamál hvort eldisfiskur sé hæft andlag veðsetningar fyrir slátrun. Fiskeldisstarfsemi er nefnilega þannig háttað að oft er mun meira verðmæti fólgið í þeim fiski sem verið er að ala en í fastafjármunum fiskeldisstöðvanna sjálfra. Þetta hlutfall er breytilegt, en þess finnast dæmi að fiskur sem alinn er í eldiskerum í sjó nái allt að tíföldu verðmæti kvíanna sjálfra.

Með veðlögum er það meginregla að mönnum sé óheimilt að setja að sjálfsvörsluveði safn af munum sem eru samkynja eða ætlaðir til samkynja notkunar og einkenndir eru einu almennu nafni. Á hinn bóginn hefur löggjafinn veitt ýmsar undanþágur frá þessari meginreglu, eins og nánar er rakið í athugasemdum með þessu frv.

Sú undanþága sem lagt er til að lögleidd verði með þessu frv. er hliðstæð þeim undanþágum sem löggjafinn hefur þegar heimilað og sýnist eldisfiskur engan veginn vera ótryggara andlag sjálfsvörsluveðsetningar en þær afurðir sem núgildandi undanþágur taka til.

Þetta frv. hefur farið óbreytt í gegnum Ed. og þar var það afgreitt samhljóða. Með því er verið að taka öll tvímæli af um það að leyfilegt er að veðsetja fisk í fiskeldisstöðvum. Þannig er verið með því að greiða fyrir eðlilegri starfsemi þessarar tiltölulega ungu atvinnugreinar.

Herra forseti. Ég tel ekki nauðsyn bera til að hafa fleiri orð um þetta sjálfsagða og nauðsynlega frv. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.