17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3127 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Einarsson (frh.):

Herra forseti. Þegar ég var hér í ræðustól í síðustu viku ræddi ég þann ágalla þessa máls, sem ég tel einna stærstan, að það fjallar alls ekki um það sem þyrfti að fjalla um í sambandi við sveitarstjórnarmál í dag. Ég gerði að umtalsefni að mönnum virðist það hugleiknara að eiga við smáa letrið þessa dagana en takast á við mál sem skipta miklu máli, mál sem eru jafnvel mjög til umræðu úti í samfélaginu allt í kringum okkur. Ég vísa þá til umræðna sem hafa orðið um fylkisstjórnir eða þriðja stjórnsýslustigið. Ég vísa þar til Samtaka um jafnrétti milli landshluta og vísa til tugþúsunda sem hafa lýst fylgi sínu við þau samtök á einn eða annan hátt með undirskriftum, með því að mæta á fundi o.s.frv.

Það sem kannske verður manni umhugsunarefni við að lesa þetta frv. er sú staðreynd að það er skrifað, eins og sagt er, ofan frá og niður úr. Það er skrifað frá félmrn. og niður til sveitarstjórnanna frekar en að vera skrifað frá sveitarstjórnunum og fólkinu upp til þeirra valdhafa sem þar sitja. Ég vil taka um þetta örfá örlítil dæmi eða lýsa almennt því sem ég tel að vanti í þessa umræðu.

Athugum hvernig umræða um sveitarstjórnarmál hefur verið víða, t.d. í löndunum í kringum okkur. Þar fjallar fólk mjög um hvernig fólkið geti fengið að koma skoðunum sínum og áhrifum til skila. Það veltir því t.d. fyrir sér hvernig það eigi að hafa áhrif á gang mála í sveitarfélögum á milli kosninga, hvort ekki eigi að setja ákvæði um borgarafundi þar sem mál séu tekin reglulega upp, hvort ekki eigi að setja ákvæði um upplýsingaskyldu og upplýsingadreifingu til borgaranna allra. Menn velta því t.d. fyrir sér hvort það eigi ekki að setja skilyrði um beint sjónvarp eða beint útvarp borgarstjórnafunda til að fólk geti fylgst með því hvað er að gerast þar, hvaða ákvarðanir er verið að taka um líf þess, hvernig verið er að ákveða að eyða peningum þess. Menn velta því fyrir sér hvort ekki væri ráð að skylda sveitarstjórnaryfirvöld til að dreifa fundargerðum bæjarstjórnafunda eða borgarstjórnafunda í öll hús í byggðarlaginu þannig að fólki sé kunnugt um hvað er þar á seyði, hvaða ákvarðanir er verið að taka um líf þess, hvernig er verið að verja fjármunum þess og hvernig er verið að móta umhverfi þess á annan hátt. Menn geta t.d. velt því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að setja um það skilyrði að reikningsniðurstöðum sveitarfélags eigi að dreifa, segjum reglulega, til allra borgaranna, hvort sem það er ársfjórðungslega eða oftar, þannig að fólk geti fylgst með því hvað er að gerast varðandi hagi þess sjálfs meðan á kjörtímabili stendur.

Þetta sjónarmið, þessi almenna áhersla á áhrif fólksins sjálfs kemur alls ekki fram nema síður sé í þessu frv. Ég vil t.d. benda á 90. gr. frv. þar sem talað er um hvað gerist ef sveitarstjórnaryfirvöld lenda í fjárþröng: „Komist sveitarfélag í fjárþröng, þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum, skal hún tilkynna það til ráðuneytisins.“ Síðan er talað um að ráðuneytið skuli tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja það síðan fyrir sveitarstjórn o.s.frv. En hvað með kjósendur? Hvað með fólkið sem kaus þessa menn? Það er ekkert talað um að það eigi t.d. að halda borgarafund eða leggja það fyrir fólkið í sveitarfélaginu hvernig málum er komið. (FrS: Það er kosið á fjögurra ára fresti.) Kemur kjósendum það ekki við ef svo illa stendur að ástæða er til að tilkynna alvarlega fjárþröng til ráðuneytis? Þó að kjósendur kjósi sveitarstjórnarmenn á fjögurra ára fresti þýðir það ekki að þeir eigi að vera áhrifalausir án umsagnar og án valda allan þann tíma. Kjósendur hafa ekki afsalað sér völdum í fjögur ár.

Þetta er dæmi um hugsunarhátt sem ég tel að þyrfti að breyta í þessu frv., þ.e. að það á að hugsa þessi mál miklu meira út frá íbúunum sjálfum. Það á að hugsa um hvernig þeir geti komið skoðunum sínum, hvernig þeir geti komið áherslum sínum til skila allt kjörtímabilið á formlegan hátt, hvort sem það er með borgarafundum eða formlegum, skriflegum tilmælum. Það eiga líka að vera ákvæði um mjög víðtæka upplýsingaskyldu stjórnvalda í héraði, t.d. með því að gera það að skyldu að dreifa fundargerðum bæjar- og borgarstjórna og nefnda þeirra á reglubundinn hátt til allra íbúa á svæðinu og tryggja fólki á annan hátt að það geti fylgst með því hvað er að gerast í þessum valdastofnunum.

Við getum t.d. velt því fyrir okkur hvað íbúar Reykjavíkur vita um gang mála hjá Reykjavíkurborg. Það er ekki vinsælt efni í ríkisfjölmiðlum að fjalla um borgarmál. Það er ekki vinsælt efni í dagblöðum landsins að fjalla um borgarmál. Engu að síður eru borgarmál, svo við tökum þau áfram sem dæmi, þau mál sem varða hagi næstum helmings þjóðarinnar. Það eru mál sem koma mjög nærri þessu sama fólki á hverjum einasta degi. Það geta verið gangstéttir, það getur verið vatnsveita, það getur verið rafmagn og sími, leikvellir eða ýmislegt annað. Allt eru þetta mál sem hvert á sinn hátt getur brunnið mjög á borgurunum, en um þetta er svo lítil umræða að hún er ekki nema brot af þeirri umræðu sem fer fram um landsmál almennt og þykir mönnum þó að miklu meira mætti gera í þeim efnum, þ.e. mönnum þykir umræðan um landsmálin í heild vera afar lítil. Hvað þá með sveitarstjórnarmálin? Þessu er líklega heldur betur komið víða úti um land þar sem bæjarblöðin nýju, sem hafa haldið innreið sína á undanförnum tveimur, þremur, fjórum árum, hafa vakið upp áhuga og umræðu um borgaramálefni. En slík umræða er ekki á stærri stöðunum eins og hér í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmum.

Ég held að þetta séu málefni sem menn ættu að velta fyrir sér þegar þeir eru að tala um sveitarstjórnarmál, hvernig hægt er að koma skoðunum og áherslum borgaranna til skila milli kosninga og hvernig borgarar geta fengið upplýsingar um hvað embættismenn þeirra og kjörnir fulltrúar eru að gera á kjörtímabilinu.

Ég held að menn ættu líka að velta fyrir sér ýmsu öðru. Menn ættu að velta fyrir sér hvort ástæða sé til að kjósa embættismenn til fleiri verka í sveitarstjórnum og sveitarfélögum en nú er, vegna þess að eins og kerfið er nú kemur upp í kringum sveitarstjórn hjörð ýmiss konar embættismanna og áhrifamanna sem bera enga ábyrgð gagnvart fólkinu sem þeir eru að vinna fyrir, enda verður það oft raunin að þessir menn líta miklu fremur á sig sem herra fólksins en þjóna þess. Þetta eru allt saman hlutir sem menn eiga að hugsa um ef þeir eru að taka til gagngerðrar endurskoðunar lög um sveitarstjórnir.

Það er alls ekki viðunandi að endurskoðunin nái einungis til sjálfsagðra tæknilegra hluta og það sé annaðhvort fellt úr eða því sé sleppt að minnast á allt sem við getum sagt að horfi til raunverulegrar opnunar þessa kerfis og aukins lýðræðis. Þetta eru enn þá frekari ástæður fyrir því að vísa þessu frv. frá að öðru leyfi en viðvíkur nauðsynlegum greinum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Það sem menn eiga þá að taka á eru þau málefni fólksins sem ég er að tala um. Það er þriðja stjórnsýslustigið eða fylkisstjórnirnar, sem er augljóslega eitthvert stærsta málið í íslenskum stjórnmálum í dag, og starfsemi sveitarstjórnanna inn á við, upplýsingaskylda þeirra, upplýsingamiðlun þeirra og hvernig sveitarstjórnir opna sig fyrir borgurunum á milli kosninga. Það er ekki nóg að auglýsa einstaka viðtalstíma. Það þarf að hafa formlegan grundvöll fyrir fólk til að koma að áhugamálum sínum, aðfinnslum og annarri umfjöllun um sveitar- og borgarstjórnarmál til skila. Þess vegna vil ég beina því til manna að þeir velti fyrir sér t.d. reglulegum borgarafundum með formlegan rétt til ályktana og áhrifa á sveitarstjórnarmál. Ég vil að menn velti því fyrir sér að kjósa embættismenn til fleiri verka en nú er. Í rauninni eru ekki kosnir neinir embættismenn. Þeir eru allir skipaðir núna. Ég tel að menn ættu að velta fyrir sér upplýsingaskyldu og upplýsingadreifingu innan sveitarfélaga, hvort sem það er gert með kapalkerfum, sem víða eru fyrir hendi, og beinum útsendingum frá bæjar- og borgarstjórnarfundum eða hvort menn gera það með útvarpssendingum eða útgáfu ritaðs og prentaðs máls. Ég held að það ætti að vera skylda að dreifa fundargerðum borgar- og bæjarstjórnarfunda inn á hvert heimili í sveitarfélaginu og ég held að það ætti að vera skylda að dreifa reikningslegum niðurstöðum um stöðu borgar- og bæjarsjóða t.d. ársfjórðungslega með góðum skýringum inn á hvert heimili í umdæminu. Þetta eru allt saman mál sem horfa til opnunar og aukins lýðræðis í þessu kerfi.

Ég skal ekki hafa langt mál um einstakar greinar þessa frv., herra forseti, en ýmislegt í sambandi við orðalag þar er býsna skondið og ber vitni um afstöðu valdsmannanna til þjóna sinna eins og ég var að tala um áðan. T.d. stendur í 2. gr. frv.: „Félmrn. fer með málefni sveitarfélaga. Engu málefni, sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags, skal ráðið til lykta án umsagnar sveitarstjórnarinnar.“ Sveitarstjórnin fær m.ö.o. að hafa umsagnarrétt um málefni sín og fólksins í sveitarfélaginu.

Menn hafa velt því fyrir sér í sambandi við 5. gr., þar sem er talað um sameiningu sveitarfélaga, hvort lögþvingun á sameiningarmálum sé í raun brot á lýðréttindum. Um það geta verið skiptar skoðanir, en ég vek athygli á því sjónarmiði.

Í 6. gr. stendur í 4. málsgr.: „Sveitarfélög skulu hafa með höndum verkefni sem ráðast af staðbundnum þörfum og viðhorfum og þar sem ætla má að þekking á aðstæðum ásamt frumkvæði heimamanna leiði til betri þjónustu fyrir þá en miðstýring af hálfu ríkisvaldsins.“

Það þarf í raun og veru alls ekki seinni hluta þessarar setningar. Það er alveg nóg að segja: Sveitarfélög skulu hafa með höndum verkefni sem ráðast af staðbundnum þörfum og viðhorfum. Það þarf ekkert að taka fram nánari skilgreiningu á því hvernig það sé mati háð að tilteknum málum sé betur varið þannig en með miðstýringaráhrifum frá ríkisvaldi.

Þannig mætti tína til ýmis dæmi um það viðhorf að þessum málum sé ráðið ofan frá og niður til sveitarfélaganna í staðinn fyrir að aðalaðsetur valdsins sé hjá sveitarfélögunum sjálfum og þeim verkefnum sem þau ekki vilja eða geta sinnt sé síðan ýtt upp til ráðuneyta eða annarra þeirra stjórnvalda sem þar sitja fyrir ofan. Þetta er spurning um viðhorf til valdsins og þetta er býsna stór spurning og raunar aðalspurningin sem menn eiga að spyrja þegar þeir fjalla um sveitarstjórnarmál.