16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessar umræður gefa ekki mikið tilefni til viðbótarathugasemda af minni hálfu. Hv. 5. þm. Austurl. hafði ekki annað fram að færa í sinni ræðu en upplestur úr stefnuskrá Verslunarráðs Íslands. Ég veit þó ekki til þess að Verslunarráðið eigi aðild að Alþingi eða fulltrúa á Alþingi. Öll þessi ræða og allur þessi málatilbúnaður sýnir kannske fyrst og fremst málefnafátækt Alþýðubandalagsins að þeir geti ekki rætt um stjórnarstefnuna, stefnu þeirra flokka sem eiga aðild að ríkisstjórninni, heldur þurfi þeir að standa upp á hinu háa Alþingi og lesa upp úr stefnuskrám hagsmunasamtaka úti í bæ.

Einnig var fróðlegt að heyra hv. 5. þm. Austurl. vitna til þekktra hagfræðinga eins og Miltons Friedmans. Ein af höfuðkenningum Miltons Friedmans er að allra meina bót sé að vísitölutengja alla hluti í hverju þjóðfélagi, laun og fjárskuldbindingar. Þetta er ein af höfuðkenningum Miltons Friedmans. Og hverjir skyldu vera þeir menn sem hafa gengið lengst í því í veröldinni að koma þessum kenningum í veruleika? Skyldi það ekki hafa verið hv. 3. þm. Reykv. sem í sinni tíð sem viðskrh. varð fyrsti viðskrh., fyrsti bankamrh. sem ég veit um í veröldinni, sem innleiddi þá skyldu að verðtryggja fjárskuldbindingar samkvæmt kenningum Miltons Friedmans? Skyldi það ekki hafa verið einmitt þessi ágæti hæstv. ráðh. Það er athyglisvert að Alþb. skuli vera sennilega eini flokkurinn sem hefur lögleitt eina af höfuðkenningum Friedmans.

Kjartan Jóhannsson, hv. 3. þm. Reykn., vék að því í sinni ræðu að Sjálfstfl. og reyndar Framsfl. hefðu verið búnir að samþykkja tillögu að fjárlagafrv. Það er laukrétt. Eitt meginmarkmið stjórnarflokkanna, sem sett var þegar fjárlagagerðin hófst, var að koma í veg fyrir hallarekstur og ná jöfnuði á milli tekna og gjalda og stöðva með því aukningu á erlendum skuldum að því er ríkissjóð sjálfan varðar. Þessu markmiði tókst að ná með fjárlagafrv. eins og það var lagt fyrir þingflokka. Ljóst var að viðskiptahalli yrði nokkur á næsta ári og í þeim drögum sem þá lágu fyrir að þjóðhagsáætlun var gert ráð fyrir að hann yrði um 3,5% af þjóðarframleiðslu. Eftir að þessar ákvarðanir voru teknar urðu verulegar breytingar á ytri aðstæðum í þjóðarbúskapnum fyrst og fremst vegna þess að bandaríkjadalur féll í verði og það orsakaði nýja erfiðleika hjá sjávarútvegi. Við urðum því í samræmi við þetta að endurmeta áform okkar um heildarútgjöld þjóðarbúsins og þau markmið sem við þurfum að ná varðandi lækkun viðskiptahalla á næsta ári til þess að tryggja rekstur sjávarútvegsins án nýrrar verðbólguholskeflu. Það er á þessum forsendum sem niðurstaða fundarins í Stykkishólmi, sem hér hefur verið vitnað til, fékkst.

Eina gagnrýnisefnið sem fram kemur í ræðum hv. þm. og ræðu hv. 3. þm. Reykn. er það að ráðherrar Sjálfstfl. hafa tekið við nýjum ráðuneytum og er býsna kynlegt að það skuli vera eina atriðið sem þeir geta flutt hér langar tölur um, að menn hafi tekið við nýjum ráðuneytum. Ég veit ekki hvort á að taka þessa umræðu alvarlega. Ég held hún lýsi fyrst og fremst málefnafátækt, en kannske er það svo að hún lýsi einhverjum gömlum kerfishugsunarhætti, að ráðherrar eigi að vera sérfræðingar í sínum ráðuneytum en ekki stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn hljóta að vera reiðubúnir til þess á hverjum tíma að fjalla um hin margvíslegustu mál sem löggjafarsamkoman og framkvæmdavaldið verða að fást við. Og þeir sem skipa ríkisstjórn verða að vera tilbúnir til þess að taka á þeim málum og taka ákvarðanir. Þeir eru ekki sérfræðingar og eiga ekki að vera sérfræðingar, en þessi hugsunarháttur ber óneitanlega keim af því að Alþfl. og Alþb. séu farin að líta á stjórnmálamenn og ráðherra sem sérfræðinga. Ég kann því illa og tel að ef svo er, ef þetta er annað en innantóm orð, án merkingar eða hugsunar, þá séu þeir ekki á réttri leið.

Ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykn. að þjóðin á mikið undir því að vel takist til við ákvarðanir á næstu vikum og mánuðum. Þær munu ráða miklu um framgang mála í okkar þjóðfélagi, þær munu ráða miklu um það hvort við getum náð betra jafnvægi í efnahagsmálum, stuðlað að auknum hagvexti og bætt lífskjörin í landinu. Og sannarlega er mikil þörf á því að um þessar ákvarðanir náist víðtæk samstaða. Við höfum verið að ná verulegum árangri í stjórn efnahagsmála, uppræta margs konar meinsemdir sem grafið hafa um sig um langan tíma. Við eigum mikið verk óunnið. Það eru mörg verkefni óleyst, ýmislegt sem við höfum ekki náð þeim tökum á sem við hefðum viljað, og um allt þetta er auðvitað æskilegast að sem víðtækust og best samstaða náist í þjóðfélaginu, ekki síst um það atriði sem jafnan skiptir mestu en það er tekjuskiptingin í þjóðfélaginu, sem menn gera út um í frjálsum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Ég vænti þess og trúi því að okkur muni sem þjóð takast vel til í þessu efni og þá er ástæða til þess að horfa með nokkurri bjartsýni til framtíðarinnar. Þó að ýmislegt hafi gengið okkur í móti, þá er svo margt að gerast í þjóðfélaginu sem gefur okkur tilefni til þess að horfa með bjartsýnum augum og ganga á þann veg á vit nýrrar framtíðar.