31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 8. þm. Reykv. hefur hér farið með þau orð sem forseti Sþ. sagði í þingslitaræðu á síðasta þingi. Það má vera að góð vísa sé aldrei of oft kveðin, en ég hefði ætlað að þm. væri þetta svo í minni að það þyrfti ekki að fara að flytja ræðuna nú aftur.

Það er ákaflega gott að þm. beri fyrir brjósti virðingu Alþingis og vil ég ekki draga úr því að það sé gert. En þá þarf líka að hafa í huga að vera ekki að gera Alþingi upp ávirðingar fram í tímann. Það er ekki til virðingar Alþingi.

Hv. þm. telur að hæstv. ríkisstj. sé aðgerðarlítil að því er varðar flutning stjfrv. á þessu þingi og að þess vegna gæti það leitt til þess að það komi of seint eða síðla á þingi fram stjfrv. sem betur væri að kæmu fyrr og dreifðust jafnara á þingtímann. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. er ekki langur tími frá því Alþingi var sett. Það er ekki að öllu leyti búið að koma Alþingi á laggirnar að því leyti að það er ekki búið að skipta verkum í tveim eða þrem nefndum, en ég ætla að það verði í dag eða á morgun. Ég tel að það sé ekki ástæða til þess að gera þetta að sérstöku ádeiluefni nú í byrjun þings. Ég sé ekki ástæðu til þess að ætla annað heldur en að vinnubrögð ríkisstj. verði með þeim hætti sem við kjósum, þannig að það verði leitast við að dreifa þingmálum sem mest á allan þingtímann. Og ég hef ástæðu til þess að ætla það - og raunar tel mig geta sagt það - að það er vilji hæstv. forsrh. og þá, geri ég ráð fyrir, ríkisstj. í heild.

Hv. 8. þm. Reykv. óskaði eftir því að forseti minnti samþingsmenn sína á að þeir væru ekki kosnir á Alþingi til þess að gegna störfum í ráðum og nefndum heldur á Alþingi. Ég tel mig vita að þm. eru það vandir að virðingu sinni að það er tilefnislaust að vera að áminna þá um þessi efni, svo sjálfsagt sem þetta er.