17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að ósk Stéttarsambands bænda og flestra búgreinasambandanna í landinu. Frv. er flutt af landbúnaðarnefndarmönnum að undanskildum hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, sem sagt meiri hl. landbn. Frvgr. er þannig:

„Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein sem verður 3. gr. og orðast svo:

Ráðherra er heimilt að ákveða skv. tillögu búgreinasambands, sem nýtur viðurkenningar skv. lögum nr. 46/ 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, eða er aðili að Stéttarsambandi bænda, að innheimta allt að 0,20% gjald af afurðum sauðfjár og nautgripa og allt að 1% gjald af afurðum annarra búgreina til viðbótar gjaldi skv. 2. gr. Gjald þetta skal renna til þess búgreinasambands sem í hlut á að frádregnum kostnaði við innheimtu gjaldsins.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þegar frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum kom til umfjöllunar í landbn. Nd. á s.l. þingi komu fram eindregin tilmæli frá búgreinasamböndunum um að sett yrði inn í það frv. heimild fyrir ráðherra að ákveða innheimtu gjalds þess sem hér er lagt til að innheimta. Þessari málaleitan var vel tekið af nefndarmönnum, en að athuguðu máli þótti eðlilegra að slík heimild yrði sett inn í lögin um Búnaðarmálasjóð eins og hér er lagt til.

Eins og kemur fram í fskj. með þessu frv. hafa flest búgreinasamböndin og einnig stjórn Stéttarsambands bænda óskað eftir því að lögunum um Búnaðarmálasjóð verði breytt á þann hátt sem frv. greinir frá. Þó er í bréfi Stéttarsambandsins lagt til að heimild verði allt að 1% á öll búgreinasamböndin. En í bréfi Landssambands sauðfjárbænda er einungis óskað eftir því að gjaldið sé 0,20%. Þess vegna er frv. flutt á þann hátt sem í frvgr. kemur fram.

Að umræðu lokinni legg ég til að þessu frv. verði vísað til landbn. og til 2. umr.