17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

231. mál, mötuneyti Pósts og síma í Thorvaldsensstræti

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem upp hefur komið sú hugmynd að nota mötuneytið sem leikhús heldur hefur þessari ósk verið synjað oftar en einu sinni áður af ráðuneytinu og hefur í því efni verið farið eftir ósk stofnunarinnar.

Fyrir liðlega tveimur árum bar ég fram þá ósk við stofnunina að Alþýðuleikhúsið fengi til bráðabirgða inni í þessu húsi, en því var alfarið synjað. Ég var hlynntur því að þessi tilraun yrði gerð, en vildi ekki ganga gegn skoðunum og áhuga starfsmanna og stjórnenda Pósts og síma. Það kemur auðvitað ekki til greina að Póstur og sími fari að reka leikhús eða tónlistarhús.

Eins og fram hefur komið í fréttatilkynningu frá blaðafulltrúa stofnunarinnar er það á misskilningi byggt að húsið sé aðeins notað sem mötuneyti í hádeginu. Starfsmenn stofnunarinnar neyta þar morgun- og hádegisverðar, auk þess sem húsnæðið er notað til margs konar starfsemi á hennar vegum og starfsmannanna. Húsið er nýtt langt fram eftir degi og einnig á kvöldin. M.a. eru haldnir þar fundir á vegum starfsmannahalds Pósts og síma. Starfsmannafélögin og eftirlaunadeild halda þar oft fundi. Skemmtanir eru haldnar og einnig er efnt til sýninga. M..a. eru þar frímerkjasýningar, svo og ýmiss konar kynning á starfsemi Pósts og síma.

Til þess að unnt sé að hafa leiksýningar fyrir almenning í húsinu þarf, að dómi þeirra manna sem ég hef rætt við, að gera á því gagngerar breytingar sem hefðu verulegan kostnað í för með sér. Eins og allir vita er hér um gamalt hús að ræða sem ekki er undir það búið að þola mjög aukna starfsemi með öllum þeim kröfum sem gera verður til húsakynna þar sem fjölmennar leiksýningar fara fram, m.a. með tilliti til brunavarna.

Ég treysti mér ekki til að standa á móti þeim rökum sem stofnunin hefur fært fyrir notkun sinni á húsinu og nauðsyn hennar og fram hefur komið í máli mínu hér og að mínu mati er algerlega út í hött að taka húsnæðið úr höndum jafnfjölmennrar starfsstéttar og póst- og símamenn eru þegar þar að auki liggur fyrir að húsið er mikið nýtt til félagsstarfsemi þeirra, mötuneytis fyrir stofnunina og ýmissar annarrar starfsemi á hennar vegum.