17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

231. mál, mötuneyti Pósts og síma í Thorvaldsensstræti

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin þótt heldur hryggi þau mig. Sá vandi sem svonefndir frjálsir leikhópar og tónlistarhópar hér í bænum eiga við að etja er gríðarlegur og á meðan þeirra mál skipast ekki á betri veg; er við því búið að þessi starfsemi leggist niður.

Ég bendi hæstv. samgrh. á að hér í miðborg Reykjavíkur eru allnokkur opinber mötuneyti, t.d. mötuneyti starfsmanna á borgarskrifstofum Reykjavíkur, og án þess að ég hafi kannað það mál sérstaklega þætti mér ekki ólíklegt að það mötuneyti eða eitthvert annað opinbert mötuneyti hér í bænum gæti bætt við sig starfsmönnum Pósts og síma.

Hæstv. samgrh. upplýsti að starfsmenn Póst- og símamálastofnunar notuðu húsið einnig til að borða í því morgunverð og til að halda fundi og ýmsar skemmtanir, svo sem sýningar á frímerkjum. Mér þykja þetta harla léttvæg rök og veigalítil miðað við þau miklu not sem hafa má af þessu húsi sem menningarhúsi í hjarta Reykjavíkur.

Ég vil ítreka að þetta hús er sérstaklega vel staðsett til að vera menningar- og listahús og hvað varðar þann kostnað sem kann að þurfa að leggja í til að gera það fullbúið til listastarfsemi, þá er hann vitaskuld margfalt minni en ef farið væri í að reisa annaðhvort nýtt leikhús eða nýtt tónlistarhús hér í bæ.

Svör hæstv. ráðh. hryggja mig. Mér þykja rök hans léttvæg. Ég veit að hæstv. ráðh. er kunnur að því að fara vel með sitt vald og þá afstöðu sem hann hefur til þess valds sem honum er falið kann ég að meta. En í máli sem þessu, þegar jafngríðarlegir hagsmunir eru í veði, þá beini ég því til hæstv. ráðh. að velta því vendilega fyrir sér hvort ekki gæti komið til greina að þarna væri ráðherravaldi vel beitt.