17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

231. mál, mötuneyti Pósts og síma í Thorvaldsensstræti

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það að ég er ekki að taka efnislega afstöðu til þess að leysa málefni þessara leiklistarhópa, en ég tel að þau verði að leysa með öðrum hætti. Ég gerði ítrekaða tilraun til að ná samkomulagi um að gera þessa tilraun fyrir Alþýðuleikhúsið á sínum tíma, endurtók það tvisvar eða þrisvar sinnum. Starfsmannaráðið og formenn starfsmannafélaga Pósts og síma voru alfarið á móti því að húsið væri notað í þessum tilgangi. Ég tel mér ekki fært í algerri andstöðu við alla þessa starfsmenn að taka húsið til slíkrar starfsemi. Ef það hefði verið gert hefði það verið gert með einhvers konar samkomulagi við þá sem notað hafa húsið öll þessi ár. Það er ekki tími til að fara nánar út í það. Ég hef í höndunum ljósrit af bréfum t.d. frá Vinnueftirliti ríkisins, starfsmannafélögunum og fleiri og fleiri röksemdir sem til eru á móti því að leyfa þessa starfsemi í þessu húsi. Þetta nær því ekki lengra. Þó að ég hefði mjög gjarnan viljað verða við óskum Alþýðuleikhússins á sínum tíma og gerði ítrekaðar tilraunir til að ná viðunandi samkomulagi um að þessi tilraun yrði gerð tókst það ekki.