17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

270. mál, friðarár Sameinuðu þjóðanna 1986

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Þann 24. okt. 1985 á 40 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna var því lýst yfir að árið 1986 yrði alþjóðlegt friðarár á vegum Sameinuðu þjóðanna. Drög höfðu verið lögð að því með samþykktum allt frá árinu 1982 og þótti vel við hæfi að byrja ár friðarins á 40 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna. Var það ekki síst vegna þess að varðveisla friðar var einmitt megintilgangur með stofnun Sameinuðu þjóðanna.

Í samþykkt allsherjarþingsins síðan 24. okt., þar sem tilkynnt var um tilgang hins alþjóðlega friðarárs og þær væntingar sem við það eru bundnar, eru öll þjóðríki, allar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, öll áhugamannasamtök, öll félög sem sinna mennta-, vísinda-, menningar- og rannsóknarmálum, svo og fjölmiðlar, hvött til að leggja þessu málefni lið. Þess er jafnframt getið að hið alþjóðlega friðarár sé ekki einungis til þess fallið að haldnar séu hátíðir og minningarathafnir í minningu friðar heldur bjóði það upp á tækifæri til þess að íhuga og bregðast við af hugvitssemi til þess að ná meginmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, þ.e. varðveislu friðar.

Í erindisbréfi frá aðalritara Sameinuðu þjóðanna til fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum er beðið um upplýsingar varðandi stofnun stjórnskipaðrar nefndar sem sjái um samræmingu og skipulagningu vegna aðgerða á árinu eins og tíðkast hefur um alþjóðaár tengd öðrum málefnum, t.d. ári æskunnar á s.l. ári og í tilefni kvennaáratugarins, um fyrirhugaðan atburð á Íslandi eða í tengslum við aðrar þjóðir sem tengist friðarárinu og um það hvort Íslendingar muni fara fram á aðstoð eða þátttöku Sameinuðu þjóðanna í einhverjum þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru.

Í þessu bréfi er getið um fund þann 14. febr. s.l. í New York þar sem aðildarríkjum, sem enn hafa ekki tilkynnt um áform sin, gefst kostur á að láta til sín heyra. Í sama bréfi biður aðalritarinn um upplýsingar frá aðildarríkjunum sem fara eiga í skýrslu til 41. aðalþings Sameinuðu þjóðanna og verði þær að berast eigi síðar en 31. júlí. Í dag er 18. mars á alþjóðlegu friðarári. Það er ekki seinna vænna að spyrja hæstv. forsrh.:

1. Hefur ríkisstj. skipað undirbúningsnefnd vegna friðarárs Sameinuðu þjóðanna 1986?

2. Hvaða áætlanir hefur ríkisstj. gert í tilefni friðarársins 1986?