17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

270. mál, friðarár Sameinuðu þjóðanna 1986

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja út af orðum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þingflokkar fylgist með þessu starfi. Að sjálfsögðu er þeim það velkomið og ég skal koma þeirri ábendingu áleiðis. Ég sé enga ástæðu til á þessari stundu að ætla að úr þessu verði lognmolla. Ef það verður hefur það verið misráðið af þessu félagi að hafa samræmingar- og forustuhlutverk. Ég vil ekki gera því skóna á þessari stundu.

Spurt var um bækling sem Atlantshafsbandalagið dreifði í skóla. Ég hef ekki hugmynd um þann bækling. Ég hef ekki séð hann og hann er örugglega ekki gerður á kostnað ríkisstjórnar. Það get ég fullvissað hv. fyrirspyrjanda um. (GHelg: Þó ekki væri.) Nei, en var ekki spurt að því í raun? Honum er dreift án óska ríkisstj. eða samþykkis.

Ég verð að segja að ég hef heldur litla trú á 20 manna nefnd. Mér sýnist að því fjölmennari sem nefndirnar verða, því minna komi frá þeim. Ég held að það sé að mörgu leyti betra að hafa smærri hóp sem leitar samráðs og upplýsinga, tillagna o.s.frv. við mjög marga aðila sem ég hygg að fljótlega verði 20 manns því að margir hafa áhuga á þessu góða máli.

Fjárveiting hefur ekki verið ákveðin, enda óskað eftir því að stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna geri tillögu um fjárveitingu. Það hafa engin mörk verið sett þar, en tillagan sem þaðan kemur og umsókn verður að sjálfsögðu skoðuð vandlega.

Ég get því miður ekki svarað því hvort einhver hefur sótt fund Sameinuðu þjóðanna, en ég held ég megi fullyrða að Sameinuðu þjóðirnar hafa fengið að vita um þessa ákvörðun. Það var að vísu fyrrverandi utanrrh. sem lagði þetta fyrir á fundi 23. janúar svo að það er ekki víst að núverandi hæstv. utanrrh. hafi þær upplýsingar á reiðum höndum, en ég skildi fyrrverandi hæstv. utanrrh. svo að hann vildi afgreiða þetta og koma því áleiðis sem allra fyrst.

Mér finnst of lítið úr sumu gert sem ég nefndi sem dæmi. Vitanlega eru sjónvarp og hljóðvarp ákaflega áhrifaríkir fjölmiðlar og geta haft mjög mikil áhrif í þessu sambandi. Jafnvel frímerki getur haft áhrif. Það kemur fyrir margra augu. Mér finnst ekki lítilsvert að gera slíkt. Kynningarbæklingur sem yrði dreift í skóla getur líka haft töluverð áhrif ef hann er vel gerður. En þetta voru aðeins dæmi.

Að sjálfsögðu er þeim sem hafa áhuga frjálst að koma sínum hugmyndum á framfæri. Ég ætlaði að ræða við formann stjórnar Félags Sameinuðu þjóðanna áður en ég svaraði fsp., en hann er því miður erlendis. Ég mun ræða við hann strax og hann kemur heim og leggja áherslu á að þetta starf verði engin lognmolla heldur alvörustarf og ég vona að svo verði.