31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

6. mál, jafnrétti og frelsi í Suður Afríku

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till. til þál. um stofnun landsnefndar til stuðnings jafnrétti og frelsi í Suður-Afríku. Það er ekki nema eðlilegt og rétt og fyllilega tímabært að við skipuleggjum með þessum eða svipuðum hætti okkar andstöðu við þessa mannfjandsamlegu aðskilnaðarstefnu stjórnvalda minni hlutans í Suður-Afríku. Eins og öllum má ljóst vera, sem fylgst hafa með málefnum suður þar, er orðið mjög brýnt að knýja á um einhverjar úrbætur í stjórnunarháttum þar ef forða á þessu ríki og reyndar má segja nálægum löndum og þessum heimshluta frá algerri upplausn og borgarastyrjöld sem virðist vera það eina sem geti orðið afleiðing af óbreyttu ástandi þar. Nýlegar kosningar og úrslit þeirra benda heldur ekki til þess að það sé ætlun hvíta minni hlutans að slaka til nema síður sé. Ef marka má niðurstöður þessara kosninga hafa þau öfl heldur sótt í sig veðrið sem fylgja vilja harðlínu og beita valdi í samskiptum við hinn svarta meiri hluta þjóðarinnar.

Ég vil einnig, herra forseti, nota þetta tækifæri enn, eins og ég gerði hér fyrir nokkrum dögum síðan á þessum vettvangi, til að hvetja íslensk stjórnvöld, hæstv. ríkisstj., til aðgerða. Ég er þeirrar skoðunar og ég vil láta það koma hér fram að réttlætanlegt sé og í raun og veru sé okkur skylt að grípa til róttækari aðgerða en hingað til hafa verið viðhafðar. Þar er ég sammála hv. flutningsmanni og síðasta ræðumanni Eiði Guðnasyni.

Ég vil einnig hér á þessum vettvangi fagna viðbrögðum íslenskrar verkalýðshreyfingar sem nýlega samþykkti að grípa hér til hliðstæðra aðgerða í Reykjavík og sambærilegar hreyfingar hafa gert í nágrannalöndunum.

Ég vil svo segja það að hvernig sem framvinda þessara mála verður á allra næstu mánuðum þá lítur það því miður þannig út að full þörf verði fyrir nefnd sem þessa og hún hafi verk að vinna þótt maður leyfi sér að vona að það verði ekki um langa framtíð og hún megi standa uppi verkefnalaus innan tiltölulega fárra ára.

Herra forseti. Andstaða smáþjóðar eins og Íslendinga í þessu máli er og getur aldrei verið annað en fyrst og fremst táknræn. Þar með er ekki sagt að ekki sé full ástæða til þess að við höfum skoðun og við látum hana koma fram eins og þær þjóðir sem stærri eru.

Það gefur auga leið að hvorki þýðing þeirra viðskipta sem þessar tvær þjóðir, Ísland og Suður-Afríka, eiga sín í millum né önnur samskipti gera það að verkum að það muni mikið um það þó að þar verði gripið til takmarkandi ráðstafana. Þaðan af síður munum við koma til með að beita afli á nokkurn hátt í bókstaflegri merkingu þess orðs gegn þessari stefnu. Því er það fyrst og fremst táknrænt ef Ísland grípur til aðgerða sem þessara og það er að sama skapi táknrænt ef Ísland gerir það ekki.

Þá hljóta menn að spyrja hvers vegna t.d. við sæjum ekki ástæðu til að koma á fót skipulegri andstöðu með því að mynda slíka nefnd þegar nálægar þjóðir hafa gert það. Ég held að það sé skynsamleg leið, ein af mörgum sem fær er til þess að skipuleggja okkar andstöðu. Því styð ég þessa till. og vona að framgangur verði hér greiður.