17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

292. mál, fjármögnun rannsókna á hvalastofninum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu svo með öll mál að endalok þeirra verða ekkí séð fyrir fram. Hitt er svo annað mál að ef Bandaríkjamenn hyggjast beita Japani þeim þrýstingi að hóta þeim að taka af þeim veiðiheimildir ef þeir muni flytja inn hvalkjöt frá Íslandi er þar að mínu mati um mjög alvarlegt mál að ræða af hálfu Bandaríkjamanna gagnvart Íslendingum. Í fyrsta lagi væru Bandaríkjamenn þá að fullyrða að hér sé ekki farið út í veiðar í vísindalegum tilgangi heldur í öðrum tilgangi, eins og svo margir hafa viljað halda fram, sem er miður vegna þess að þessar veiðar stríða ekki gegn þeim lögum sem hér er vitnað i. Ég vænti þess að Bandaríkjamenn muni ekki framkvæma slíkt, en ef þeir hins vegar gera það hlýtur það að vera mjög alvarlegt mál í augum okkar margra sem höfum haft verulegt álit á því þjóðfélagi sem þar er rekið. Ég hef ekki viljað trúa því fram að þessu að bandarísk stjórnvöld láti undan hótunum ýmissa hagsmunasamtaka í Bandaríkjunum í þessu máli, en ef þeir gera það býst ég við að það muni verða mjög alvarlegur atburður í vitund margra Íslendinga.