17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

327. mál, hafnamál

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í gildandi hafnalögum frá 1984 segir um framkvæmdaáætlun í 29. gr.:

„Hafnamálastofnun skal vinna að gerð áætlana um hafnarframkvæmdir til nokkurra ára í senn, en þó aldrei skemur en til fjögurra ára. Við þessa áætlunargerð ber Hafnamálastofnuninni að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórnir, Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð. Sérstök fjögurra ára áætlun um hafnarframkvæmdir skal gerð á tveggja ára fresti. Áður en gengið er endanlega frá áætluninni skal hafnamálastjóri senda stjórn hverrar hafnar tillögur sínar um framkvæmdir á áætlunartímabilinu við þá höfn og gefa hafnarstjórnum tiltekinn frest til að koma með athugasemdir og breytingartillögur. Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar. Ráðherra skal árlega leggja fyrir Alþingi skýrslu um framkvæmdir í hafnamálum árið áður.“

Svipað ákvæði er að finna í eldri lögum um hafnamál. Síðasta fjögurra ára áætlun um hafnargerðir var gefin út í maí 1981 og var fyrir árin 1981-1984. Í Hafnamálastofnun var síðan samin áætlun um hafnargerðir 19831986, en hún var aldrei lögð fram, m.a. vegna þess að ljóst var að ekki yrði unnt að afla þess fjár til framkvæmda í hafnargerðum sem gert var ráð fyrir í áætluninni. Það var því fullkomlega óraunhæft og aðeins til þess fallið að valda óþarfa deilum og misskilningi að leggja áætlun fram í því formi sem hún var frá hendi Hafnamálastofnunar.

Þrátt fyrir það sem ég hef hér sagt hefur vinna að gerð áætlunar fram í tímann um hafnargerðir alls ekki verið felld niður. Þannig var undirbúin á síðasta ári fjögurra ára áætlun, en af sömu ástæðu og ég gat um áðan var hún ekki heldur lögð fram.

Mér er hins vegar fullkomlega ljós gagnsemi slíkra áætlana og mun beita mér fyrir því að fjögurra ára áætlun verði lögð fram að hausti, enda verði fjárveitingar til hafnamála þá komnar í betra horf.

Varðandi hinar spurningarnar, eins og 2. og 3. spurningu, um úttekt sem hér er spurt um, þá hefur hún ekki farið fram, en hún er til athugunar og ábendingin sem í spurningunni felst er fyllilega tímabær.

Varðandi 4. spurninguna, þá eru á fjárlögum þessa árs 74 millj. ætlaðar til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. Af þessari upphæð ganga um 50 millj. til þess að greiða upp lán vegna framkvæmda sem unnar voru á síðasta ári.

Varðandi 5. og síðustu spurninguna, þá leiðir af framansögðu að 24 millj. eru eftir til nýrra framkvæmda og verða þær við 13 hafnir á landinu. Auk þess er framlag til ferjubryggja 3,7 millj. kr., til landshafnar á Rifi 900 þús., til landshafnar við Þorlákshöfn 4 millj. og til landshafnar í Keflavík/Njarðvík 600 þús. Loks er framlag til Hafnabótasjóðs 12 millj. kr., en hann mun hafa töluvert fé til ráðstöfunar skv. áætlun eða samtals 30 millj. kr. Um fyrirgreiðslu úr sjóðnum getur þó ekki orðið að ræða fyrr en síðar á þessu ári.

Mér er alveg ljóst að framlög til hafnamála síðustu tvö árin hafa verið langt fyrir neðan algjört lágmark og þar er ekki við samgrh. eða samgrn. að sakast því að það hefur lagt til að um miklu hærri framlög til hafnamála væri að ræða. Hins vegar hafa þessi framlög verið skorin verulega niður, fyrst og fremst af Fjárlaga- og hagsýslustofnun og ríkisstj. í heild, við öflug mótmæli mín sem samgrh. bæði árin, en ég hygg að mönnum sé nú farið að verða ljóst að það sé ekki hægt að skera niður hafnarframkvæmdir þriðja árið í röð. Ég hef fyrir um mánuði dreift í ríkisstj. samantekt um hvernig ástand og horfur eru í sambandi við einstakar hafnir á landinu, hvað nauðsynlegt er að gera þó að áætlun hafi ekki verið lögð fram. Mér hefur fundist það vera hálfundarlegt að leggja fram áætlun á sama tíma og verið er að skera niður frá þeirri áætlun þannig að ekki er staðið við neitt. En ég vona að niðurskurðarmenn framlaga til hafnarframkvæmda verði ekki eins stórtækir á næsta ári og þeir hafa verið síðustu tvö árin og að framlög verði aukin verulega því að á því er brýn þörf eins og fyrirspyrjandi gat réttilega um.