17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

299. mál, byggðanefnd þingflokkanna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég heyrði einu sinni sagða þá sögu um starfsemi byggðadeildar Framkvæmdastofnunar að þar hefði einu sinni verið gerð tillaga um að styrkja byggð á ákveðnum stað á landinu. Síðan tafðist þetta mál og breyttist í áætlun um að bjarga byggð á þessum sama stað og mér var sagt á endanum að þá hefði þessi áætlun breyst í það að vera tillaga um styrk við fornleifauppgröft á þessum sama stað. Það er kannske saga byggðamála í hnotskurn. Mér sýnist að það geti allt eins farið svo að umræða um fylkisstjórnir eða valddreifingu og byggð í landinu verði á endanum sú að menn á Alþingi geri einhvern daginn um það stóráætlun að grafa upp fornleifar víða um land og sjá hvernig fólk bjó.

Ef svo fer sem horfir gæti það akkúrat orðið hlutskipti byggðarinnar að verða viðfangsefni fræðimanna. Alþingi virðist alls ekki til þess búið að ræða um byggðamál hvort sem það er í sérstakri byggðanefnd eða í þinginu þar sem eru til umræðu mál eins og sveitarstjórnarlög og upplagt tækifæri til þess að taka á þeim málum. Málunum er ætíð frestað. Það er sem sagt sama hvort það er hv. Alþingi eða byggðanefndir sem eru settar upp á þess vegum. Þessi mál fást ekki rædd en á meðan skrifa þúsundir og tugþúsundir fólks um allt land undir áskorun til ráðamanna um að taka á þeim.