17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3171 í B-deild Alþingistíðinda. (2764)

290. mál, verðbætur á innlán og útlán banka

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Vegna fram kominna athugasemda frá hæstv. ráðherra held ég að það sé alveg rétt að þó að hann hefði haft þessa ræðu tveimur klukkutímum lengri hefði ég ekkert skilið meira í því sem hann var að segja því að hann var í raun og veru ekki að svara nema í mjög almennum orðum hlutum sem hvaða maður sem er gerir sér grein fyrir.

Aftur á móti hvað viðvíkur fram kominni viðbótarfyrirspurn er það alveg rétt, eins og hv. 3. þm. Reykn. setti málið fram, að menn fara mismunandi með vexti af útlánum og innlánum og ég taldi þetta sjálfur að athuguðu máli vera að einhverju leyti skýringu á þeim hlut sem ég var að spyrjast fyrir um, að menn tapi í raun og veru á vissan hátt á verðbótatilfærslunni í útlánastarfseminni og þeir verði að bæta sér það tap upp að einhverju leyti með öðruvísi vaxtatöku til þess að ná endum saman í árslok. Ég held bara að tapið sé meira en svo að þessi vaxtataka nægi til þess að brúa bilið á milli greiddra verðbóta af innlánum og innkominna verðbóta af útlánum.